145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er mjög hissa á þessum kafla í nefndaráliti meiri hlutans. Mér finnst mjög sérkennilegt að meiri hlutinn skuli nota nefndarálit með fjárlagafrumvarpi til að gefa ráðherrum sínum skilaboð um eitthvað sem á sjálfsagt að gera fyrir þarnæstu fjárlög þar sem það er ekkert sérstakt í fjárlagafrumvarpinu eða breytingartillögunum sem snýr að þessum eftirlitsstofnunum nema auðvitað niðurskurðurinn til umboðsmanns Alþingis, sem kemur frá meiri hluta fjárlaganefndar. Þetta er sannarlega umhugsunarefni.

Hv. þingmaður nefndi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Haustið 2010 samþykktu 63 þingmenn á Alþingi þingsályktun. Ein línan í þeirri þingsályktun er einmitt um eftirlit og Alþingi ályktaði að eftirlitsstofnanir hefðu brugðist í aðdraganda hrunsins. Þar er síðan farið í greiningar á því og talað bæði um Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann í því sambandi.

Ég velti fyrir mér hvort nýir þingmenn sem komu inn við síðustu kosningar og jafnvel einhverjir af þeim eldri hefðu kannski ekki lesið skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og spyr hv. þingmann hvort hún teldi það ekki góða hugmynd að við fengjum kennslustund og upprifjun á þeim athugasemdum sem þar voru gerðar til að minna okkur á svo við dyttum ekki í sama fúla pyttinn og við vorum að busla í fyrir hrun.