145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:35]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Nú er ég hér mættur klyfjaður í ræðustól til að ræða um fjárlög hjá okkur á þessu herrans ári 2015.

Það er búið að vera mjög fróðlegt að hlusta á þessa umræðu og fylgjast með. Maður er alltaf að læra. Maður verður aldrei fullnuma í þessum fræðum eða því að vera stjórnmálamaður held ég yfir höfuð. Það finnst mér oft dálítið flókið á köflum. Ég velti því samt oft fyrir mér þegar ég ákvað að fara út í stjórnmál hvernig maður ætti að haga sér í þessum slag sem er hér. Eitt af því sem rak mig í stjórnmál var að reyna að breyta þeim. Við í Bjartri framtíð boðuðum það í kosningabaráttunni að við vildum reyna að breyta stjórnmálum og reyna að gera þau aðeins öðruvísi, taka mark á því sem var skrifað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, taka mark á því sem fólk var að segja úti í samfélaginu sem kallaði eftir því að hér yrði önnur umræðuhefð og framkoma í garð hver annars mundi breytast. Það var ekki síst eftir hrun og eftir síðasta kjörtímabil sem var náttúrlega alveg hreint einstakt í sögu íslensku þjóðarinnar, alla vega eftir því sem ég man eftir að ég fór að fylgjast með stjórnmálum. Það að fylgjast með því sem gerðist hér á síðasta kjörtímabili var náttúrlega með hreinum ólíkindum, hvernig fólk kom hvert fram við annað og hvernig menn létu.

Það breyttist ótrúlega margt á Íslandi á síðasta kjörtímabili og þar spilaði margt inn í, þetta margblessaða Icesave-mál, landsdómsmálið og ýmislegt sem gerði að verkum að hér logaði allt stafna á milli. Traustið á milli manna hreinlega hvarf sem er gríðarlega alvarlegt því að traust er algjört lykilatriði í mannlegum samskiptum. Þegar það fer að dvína þá er ekki von á góðu. Það er einmitt það sem mér hefur fundist einkenna íslenskt samfélag dálítið lengi núna, skortur á trausti og virðingu og samlíðan ef ég má taka svo til orða. Émile Durkheim sem var franskur félagsfræðingur talaði um siðrof, en ég stundaði nám í háskólanum í stjórnmálafræði eina önn og þá las ég um það hugtak og vil, með leyfi forseta, vitna í það sem ég fann á Wikipediu:

„Siðrof er hugtak sem vísar til upplausnar samfélags þar sem samheldni og hefðbundið skipulag, sérstaklega það sem tengist viðmiðum og gildum, hefur veikst og við tekur lögleysa. Émile Durkheim, sem er upphafsmaður kenninga um siðrof, taldi að siðrof væri venjulega fylgifiskur snöggra félagslegra breytinga, svo sem efnahagsþrenginga eða góðæra í samfélaginu. Hefðbundin viðmið veikjast án þess að ný myndist og það leiðir til þess að einstaklingar vita ekki almennilega hvernig þeir eiga að umgangast og hegða sér í samskiptum hverjir við aðra.“

Mér finnst þetta eiga við íslenskt samfélag síðustu árin. Við vitum ekkert hvernig við eigum að haga okkur í samskiptum við aðra og það má ekkert segja eða gera í samfélaginu án þess að allt fari á hliðina. Mér finnst við stjórnmálamenn líka bera svolitla ábyrgð á því með framkomu okkar við hvert annað hér á Alþingi.

Ég man eftir því þegar við byrjuðum hér sem þingmenn þá fórum við í smánámskeið hjá hæstv. forseta þar sem hann fór yfir þetta allt saman, hvernig við ættum að hegða okkur. Hann vísaði í það hvernig þetta hefði verið áður og að við ættum ekki að taka mikið mark á eldri þingmönnum, sérstaklega gömlu refunum sem væru búnir að vera hér lengi, við skyldum passa okkur á því að vera ekki að umgangast þá mikið þegar mikið gengi á á Alþingi, ekki fara mikið eftir þeim.(Gripið fram í: Mjög góð ráð.) Maður hefur reynt í lengstu lög að gera það. Forseti talaði um að við þyrftum að auka virðingu Alþingis, hún væri í algjöru sögulegu lágmarki, á þeim tíma mældist traust á Alþingi úti í samfélaginu um 11–12%. Ég held að síðustu mælingar hafi sýnt að traustið er í kringum 14% þannig að ekki höfum við bætt miklu við þau tvö og hálft ár sem við höfum setið hér.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum þetta er. Ég velti því líka fyrir mér hvers vegna í ósköpunum fólk er í þessum slag hérna endalaust.(Gripið fram í.) Núverandi stjórnarliðar benda á síðustu ríkisstjórn. Mér finnst það aumasta sem hægt er að gera að benda á einhvern annan þegar maður er að reyna að fela eigin aumingjaskap. Ég veit ekki hvort ég eigi að kalla þetta aumingjaskap, það er kannski fullsterkt til orða tekið. En mér finnst aumt þegar menn reyna að fela eitthvað eða réttlæta eitthvað sem þeir gera með því að segja: Hann gerði þetta. Hvernig gerðuð þið þetta? Mér finnst ótrúlegur tími fara í það á Alþingi í umræðunni hjá okkur og umræðunni um nánast hvað sem er, þessi stóru mál, í þennan eilífa slag og að benda á hvert annað. Ég trúi því að með meiri samskiptum og samvinnu sé hægt að ná miklu betri árangri.

Það á við um fjárlög, þegar við erum að vinna að fjárlagafrumvarpinu. Frumvarpið er búið að vera í þrjá mánuði inni í nefnd. Eitt af því sem hæstv. forseti sagði við okkur í upphafi sumarþings 2013 og haustþingsins líka var að hann mundi leggja gríðarlega áherslu á að mál kæmu tímanlega inn til þess að þau gætu fengið góða og efnislega umræðu og hægt væri að ljúka þeim á tilsettum tíma. Það hefur aldrei gengið eftir. Umræðan um fjárlög núna er tíu, ellefu dögum á eftir áætlun sem er ótrúlegt. Svo komum við í ræðustól og tölum dögum saman um þetta og rífumst endalaust í staðinn fyrir að við vinnum málið miklu betur saman í nefndinni þvert á flokka. Það getur vel verið að mönnum finnist það barnalegt hjá mér að segja þetta eða einfeldingslegt. Mér er alveg saman, ég er bara einfaldur maður, ófullkominn eins og frekast má vera. En ég er að reyna að gera mitt besta og ég hef reynt að gera það alveg frá upphafi. Ég man eftir því í ræðu sem ég hélt við upphafi þings að ég hvatti ríkisstjórnina til góðra verka, ég væri ekkert endilega stjórnarandstæðingur. Ég væri bara þingmaður kosinn af þjóðinni, reyndar uppbótarþingmaður sem hrundi síðastur inn á þing, ég er 63. þingmaður þjóðarinnar. Síðastur en ekki sístur (Gripið fram í.) og er að reyna að gera mitt besta. Ég hef reynt að koma fram af virðingu við alla hér og mér finnst að við eigum að gera það.

Nú hef ég ekkert slæmt um hæstv. forsætisráðherra að segja, þekki þennan mann ekkert voðalega mikið, en mér finnst hann samt sem áður hafa brugðist sem forsætisráðherra. Hann er búinn að vera í eilífum slag við þjóðina, fræðimenn, blaðamenn og það má enginn segja neitt, þá er hann í eilífum slag, maður sem vann stórsigur í kosningum. Ég hefði barið mér á brjóst og borið höfuðið hátt. En hann er búinn að vera í eilífu stríði við alla og mér finnst það með ólíkindum. Það er ekki góðs viti.

Maður er oft dapur í vinnunni. Ég hef oft verið dapur yfir því hvernig við högum vinnu okkar hérna af því að við erum kosin til að verja almannaheill fyrst og fremst. Út á það ganga stjórnmál. Starfslýsing stjórnmálamanns og þingmanns er farsæld þjóðar. Allt sem við gerum hér á að miðast að því að það komi þjóðinni vel. Öll viðmið eiga að miðast við það. Öll viðmið um frumvarp eiga að vera spurningin: Er það til hagsældar fyrir þjóðina? Ég velti fyrir mér hvort þessi fjárlög séu til þess að bæta það sem á vantar í íslensku samfélagi. Stjórnarflokkarnir og forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa verið mjög duglegir við að segja að hér sé allt á blússandi uppleið, hér sé blússandi góðæri, sagði landsbankastjóri og fleiri málsmetandi menn. Það er staðreynd. Það hefur verið hagvöxtur á Íslandi síðustu fimm, sex ár. En mér finnst það ekki skila sér, t.d. ekki í heilbrigðiskerfið. Ég hef ekki endilega rosalega mikið vit á því en ég hlusta á fólk sem vinnur við þetta, forstjóra Landspítalans, formann læknafélagsins, lækna. Nú síðast í dag ritaði Styrmir Gunnarsson, sá mæti maður, pistil á heimasíðu sína þar sem hann hvetur ríkisstjórnina til þess að endurskoða hug sinn hvað varðar öryrkja og eldri borgara og heilbrigðiskerfið. Af hverju ekki að gefa eftir? Hann vitnar m.a. til Ólafs Thors, þess ágæta manns, hann hafi gert það einhvern tíma, gefið eftir. Af hverju gerum við það ekki. Hvers vegna ekki? Það er bullandi góðæri. Stöðugleikaframlagið að fara að tikka inn á næsta ári. Ef ekki er tækifæri til þess núna, hvenær þá?

Það hefur komið fram í ræðum margra hv. þingmanna sem hafa miklu meira vit á fjármálum en nokkurn tíma ég, eins og t.d. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem hefur farið mjög ítarlega yfir það hvernig þessi mál hafa verið — hann hefur náttúrlega verið að reyna að verja sitt sem er ekkert óeðlilegt, þegar á menn er ráðist þá verja þeir sig — að það sé skrýtið að ekki sé meiri afgangur af ríkissjóði eftir þrjú ár. Það er nánast verið að svelta heilbrigðiskerfið. Það er kannski fullsterkt að segja það, en það funkerar ekki. Það er bara þannig. Ég velti því líka fyrir mér að eftir mögur ár eftir að hrunið varð og síðasta ríkisstjórn barðist við að ná niður halla ríkissjóðs um fleiri hundruð milljarða og tókst það og skilaði þokkalegu búi, er samt allt búið að loga síðan í samfélaginu, í verkföllum og deilum og allir óánægðir. Hvers vegna? Ég velti því oft fyrir mér. Af hverju þarf þetta að vera svona erfitt? Það eru yfir 90% þjóðarinnar sem hafa sagt í skoðanakönnunum að það eigi að setja heilbrigðiskerfið í algjöran forgang. Það er algjör undirstaða í nútímasamfélagi, velferðarsamfélagi, að heilbrigðiskerfið gangi. Ef við erum með slæmt heilbrigðiskerfi fer að hrikta í stoðum.

Ég hef tekið eftir því sem þingmaður, ég er búinn að ferðast mikið um og tala við margt fólk í sambandi við geðheilbrigðismál barna og annað, að þau mál eru í bölvuðum ólestri eins og svo margt annað hjá okkur. Málefni fanga til dæmis. Það eru fimm eða sex eða sjö manneskjur sem sinna 600 föngum sem margir hverjir eiga í ofboðslegum erfiðleikum, andlegum erfiðleikum. Því er ekkert sinnt, nánast ekki neitt. Reyndar er bætt í við Fangelsismálastofnun um 45 millj. kr., ég fagna því, sem á meðal annars að nota til að opna Barnakot aftur. Hvaða sómi er að því fyrir þjóð að loka í fangelsi heimsóknaraðstöðu fyrir börn? Það er skammarlegt hjá þjóð sem er búin að skrifa undir barnasáttmálann. Það stendur meira að segja í lögum um fullnustu refsinga að fangelsismálastjóra beri að sinna því að börn fái að hitta foreldra sína, oft á mjög viðkvæmum tímum. Þetta er ekki til eftirbreytni, ég verð að segja alveg eins og er.

Mig langar til að lesa grein sem ég fann á netinu og hef lesið áður og ég hef áður vitnað í hana hér. Hún fjallar um mannhelgi. Höfundur þessarar greinar er að tala um þátt sem var sýndur um Ólaf Thors, þann mikla og merka mann. (Gripið fram í: Sjálfstæðismann.) Já, sjálfstæðismann. (Gripið fram í.) Já, hann var merkur maður, ég vil bara segja það, hv. þm. Oddný Harðardóttir. Hann var merkur maður í sögu þjóðarinnar. (OH: Já, já.) Við getum deilt um það hvort hann hafi verið í réttum flokki en það er annað mál.

Höfundur greinarinnar segist hafa horft á heimildarþátt um Ólaf Thors og vill nú meina það að þátturinn hafi verið hálfgert þunnildi og bæti engu við almenna vitneskju um þennan stjórnmálaforingja, en hann segir síðan, með leyfi forseta:

„Þó var þar rifjað upp eitt atriði sem fangaði hug minn sérstaklega, af því að orð fá stundum aukið vægi við ákveðnar aðstæður. Þetta var stutt svipmynd af því er Ólafur flutti ræðu skömmu eftir stofnun lýðveldisins 1944. Og þá sagði hann meðal annars: „Kjörorð hins íslenska lýðveldis er mannhelgi.“

Og greinarhöfundur heldur áfram:

„Orðið mannhelgi er skýrt svo sem það sé lögfræðilegt hugtak og merki „persónulegt öryggi staðfest með lögum“ (íslensk orðabók Menningarsjóðs). Nú er „persónulegt öryggi“ að vísu teygjanlegt hugtak og ekki víst að allir skilji það eins. En ég hygg þó að í hugum margra merki orðið „mannhelgi“ í raun meira en einbert lögfræðilegt hugtak segir til um, vegna síðari hluta orðsins er felur í sér í senn friðhelgi og heilagleika. Ég leyfi mér að minnsta kosti að skilja orð Ólafs svo, að grundvöllur hins íslenska lýðveldis eigi að vera mannúðarhugsjón, að í hinu nýfengna fullnaðarfrelsi þjóðarinnar felist tækifæri og raunar nauðsyn þess að skapa samfélag frjálsra manna er stefni að gróandi þjóðlífi með mannréttindi, samkennd og réttlæti að leiðarljósi. Slík framtíðarsýn felur í sér ósk og hugsjón. Og hugsjón gerir kröfu til hollustu og þjónustu. Því hlýtur að búa í þessum orðum Ólafs krafa um að þeir, sem veljast til forystu fyrir þjóðinni, þjóni þeirri hugsjón um mannhelgi, sem er kjörorð hins íslenska lýðveldis.“

Síðan spyr höfundur: „Og hvernig hefur svo til tekist?“ Þetta var skrifað fyrir 18 árum eða 1997. Hann heldur áfram:

„Er kjörorð hins íslenska lýðveldis enn þá mannhelgi? Má vera að svo sé í hugum sumra, og ég vona margra, — en ekki í hugum þeirra sem nú fara með völd á Íslandi, svo mikið er víst, þótt annar stjórnarflokkurinn hafi boðað þá stefnu að setja manneskjuna í öndvegi. Það er ekki mannúð sem nú situr í öndvegi í valdasal þjóðarinnar, heldur köld markaðshyggja, sem ekki kann að finna til með þeim er minna mega sín og umfram allt þurfa á kjörorðinu góða að halda.“

Ég velti því fyrir mér hvort þetta eigi við núna. Getur verið að ástandið sé svipað? (BN: Nei.) Nei, segir hv. þm. Brynjar Níelsson. Ég veit það ekki, ég er að spyrja. Með leyfi forseta, ég held áfram að vitna í greinina:

„Ekki er það í nafni mannhelgi sem fáeinum mönnum hefur í raun verið gefin mesta auðlind þjóðarinnar, óveiddir fiskar hafsins. Það eru einhver allra alvarlegustu mistök íslenskra stjórnmálamanna og veldur þvílíku óréttlæti, að það hlýtur að vekja upp reiði allra manna er búa yfir réttlætiskennd.“

Menn geta svo velt því fyrir sér hvort það sé rétt sem hann segir. Ég held að það sé ótrúlega mikið til í þessu. Hann heldur áfram:

„Ekki er sinnuleysi í umhverfismálum og náttúruvernd í nafni mannhelgi. Landið okkar, náttúra þess og landgæði, er framtíðarumgjörð um tilveru okkar. Það er ótrúleg skammsýni að skaða það fyrir stundarhagsmuni.“

Við munum hvernig umræðan var í vor um rammaáætlun. Menn hafa talað um það hér að það þurfi að stækka kökuna á Íslandi. Ég er ekki sammála því. Ég sé ekki endilega þörf á því að stækka kökuna á Íslandi. Það þarf að skipta henni réttar. Það er málið. Það þarf að dreifa byrðunum meira og þeir sem meira eiga þurfa að taka aðeins meira á sig til þess að við getum rekið gott velferðarsamfélag. Greinarhöfundur heldur áfram, með leyfi forseta:

„Ekki er það með mannhelgi að leiðarljósi sem íslenskir skólar eru hafðir í fjársvelti og kennarar illa launaðir. Góð menntun ungs fólks er lykill að framtíðarvelferð þjóðarinnar.“

Menntun er fjárfesting fyrst og fremst fyrir framtíðina og við vitum hvernig staðan hefur verið í menntamálum þjóðarinnar síðasta árið og hvernig hæstv. menntamálaráðherra hefur farið fram t.d. gagnvart framhaldsskólanum, með skertu aðgengi 25 ára og eldri. Ég held að það sé ekki til að bæta hag þjóðarinnar. En höfundur heldur áfram:

„Ekki er það í nafni mannhelgi sem heilbrigðiskerfið er nánast að lamast fyrir augum okkar.“ Þetta skrifar hann 1997. Og gerið ykkur grein fyrir því að síðan er búið að vera blússandi góðæri þar sem menn voru spurðir trekk í trekk hvort þeir sæju ekki veisluna.

„Sjúku fólki er vísað á kaldan klaka. Það er mikill misskilningur að halda að það sé fjárhagslega hagkvæmt að halda fólki sjúku, auk þess sem það ber vott um átakanlegan skort á samkennd.

Ekki er það í nafni mannhelgi að sitja því sem næst aðgerðalaus og horfa á vímuefnaneyslu skaða íslenska unglinga og jafnvel gereyðileggja líf þeirra.“

Við erum að reyna markvisst að laga það, en það má gera betur. Það er alveg á hreinu árið 2015.

„Ekki er það í nafni mannhelgi hvernig búið er að öldruðu fólki. Nú síðast berast þær fréttir, að best sé fyrir roskin hjón að skilja til að auka tekjur sínar. Er það ekki skýrt dæmi um það hvernig djúpstæðar tilfinningar fólks eru fyrirlitnar?“

Þetta er áhugavert með tilliti til þess sem hefur gengið á undanfarið út af málefnum eldri borgara og öryrkja. Hér hafa menn komið fram með alls kyns tölur og prósentur og ég efast ekki um að það er rétt sem menn hafa haldið fram. Ég er sammála hv. þm. Karli Garðarssyni þegar hann ritar að hér á þingi sé ekkert illmenni. Það er ekkert illmenni hér á Alþingi þótt það megi oft halda það þegar maður les samfélagsmiðla. (Gripið fram í: Ertu að horfa á mig?) Nei, nei. Ég trúi því ekki að hér sé eitthvert illmenni. Það er langt í frá. Ég hef ekki kynnst neinu illmenni hér. Menn hafa misjafnar skoðanir, það er ljóst, og ólíkar áherslur. Mínar áherslur eru þær að við eigum fyrst og fremst að hugsa um þá sem lakast standa í samfélaginu. Um þá eigum við að hugsa um fyrst og fremst þegar hagur fer að vænkast. Það hefur ekki verið gert. Ekki nóg. Það er alveg á hreinu. Það getur vel verið að einhverjir hafi það gott sem eru öryrkjar eða eldri borgarar og auðvitað er það þannig. Það er fullt af moldríkum eldri borgurum sem hafa notið þess og verið duglegir að koma sinni ár fyrir borð og ekkert við því að segja. En það er ótrúlega mikill fjöldi sem á varla til hnífs og skeiðar. Þannig er það. Það hefur maður fengið að upplifa núna á undanförnum dögum þegar fólk er að hringja í mann eða senda manni pósta og segja sögu sína. Er þetta fólk að ljúga? Nei, ég held ekki. Ég hef séð það með eigin augum. Það hringdi í mig gamall maður í Keflavík um daginn. Hann fær 170 þúsund kall á mánuði. Af því fara 90 þús. kr. í leigu. Svo þarf hann að reka sig. Hann verður að neita sér um lyf, hann er krabbameinssjúklingur en getur ekki fengið sér lyf. Það er orðið svo dýrt að fara til læknis. Ég veit það ekki. Ég er svolítið hugsi yfir því hvar við erum stödd.

Ég ætla að halda áfram að vitna í þessa grein, hún er mjög góð. (Gripið fram í: Eftir hvern er hún?) Það kemur í ljós. Með leyfi forseta:

„Hverjar eru helstu áhyggjur íslenskra fjölskyldna? Í hnotskurn má ef til vill segja að þær birtist í því að horfa allt of víða upp á skort á virðingu fyrir mannhelgi. Íslensk fjölskylda þarf fyrst að ná endum saman. Hún vill veita börnum sínum góða menntun og vernda þau fyrir skaðvöldum áfengis og eiturlyfja. Hún vill búa við slíkt öryggi í heilbrigðismálum, að sjúkdómar eyðileggi ekki fjárhag þeirra, eins og dæmi eru um annars staðar í veröldinni. Hún vill njóta sæmilegs öryggis á efri árum og ofurlítillar virðingar fyrir þau störf sem lögð hafa verið fram í þágu þjóðfélagsins. Og hún vill fá að búa við andlegt frelsi.

Þetta eru í raun ekki flókin vandamál, og ef stjórnmálaflokkur hefði vit á að leggja áherslu á þau í alvöru en ekki í fyrirheitum sem eru svikin jafnharðan, þá hygg ég að sá stjórnmálaflokkur hefði greiðan aðgang að fylgi fólksins. En þá verður líka jafnframt að láta af því óhugnanlega óréttlæti sem blasir við okkur. Hvernig á íslenskt launafólk að sætta sig við kjör sín, þegar það horfir upp á að forréttindamenn hafa sömu mánaðarlaun og það hefur í árslaun, auk annarra fríðinda? Tökum sem dæmi einstæða móður með tvö börn í leiguhúsnæði og starfar í fiskvinnslu. Eru margir sem vilja skipta á kjörum við hana? Er hún kannski dæmi um mannhelgishugsjón íslenska lýðveldisins?

Ég held sannast að segja, að það sé kominn tími til að við Íslendingar endurmetum stöðu okkar og gerum upp hug okkar. Eru núverandi aðstæður okkar í samræmi við vilja þjóðarinnar? Sættum við okkur við öndvegi markaðshyggjunnar? Eða viljum við stefna aftur að því markmiði að kjörorð íslenska lýðveldisins sé mannhelgi?“

Þessa grein ritaði Njörður P. Njarðvík í Morgunblaðið 28. maí 1997. Mér finnst þetta góð grein og hún hefur vakið mig til umhugsunar um það hvar við erum stödd árið 2015. Hefur okkur eitthvað miðað áfram eða erum við enn þá ógeðslegt samfélag þar sem engar hugsjónir eða prinsipp eru höfð? Eða er þar bara valdabarátta og græðgi, eins og góður maður sagði í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, maður sem hafði starfað m.a. innan Sjálfstæðisflokksins, fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og var ritstjóri Morgunblaðsins í tæp 50 ár? Ég trúi honum alveg. Ég trúi því sem hann segir um þetta samfélag.

Ég velti því fyrir mér hvort samfélagið sé hagsmunabandalag sérhagsmuna. Eru þeir látnir ganga fyrir? Ég veit að það er gríðarlegur þrýstingur á stjórnmálamenn að ganga erinda sérhagsmuna. Það kemur kannski í ljós þegar við lækkum veiðigjöldin. Ég veit að útgerðin er gríðarlega vel rekin og getur verið stolt okkar Íslendinga. Mér er mjög annt um íslenskan sjávarútveg og starfaði í honum í 30 ár. Ég hef séð hvernig hann hefur dafnað og risið upp á síðustu árum, sérstaklega eftir hrun þegar krónan hrundi með skelli og byrðar á almenning í landinu urðu gríðarlega þungar. En þá blómstraði sjávarútvegurinn og útflutningsgreinar. Ég hef nefnt það áður hér í ræðustól og við getum nefnt hvernig þetta var áður fyrr þegar illa gekk í útflutningsgreinum eins og sjávarútvegi, þá var gengið fellt og byrðarnar settar á almenning. Nú þegar þetta snýst við þá þráast þeir við að borga veiðigjöld. Svo hefur líka verið spurt í ræðustól: Hvað eru eðlileg veiðigjöld? Hvað er eðlilegt að borga af umframhagnaði eins og þessi sérstöku veiðigjöld eru hugsuð? EBITDA, var hún ekki 72 milljarðar á síðasta ári? Er eðlilegt að það sé verið að borga 10% af því, finnst okkur það, af auðlind sem við eigum saman? Ég veit það ekki. Af hverju ræðum við það ekki hérna? Af hverju reynum við ekki að komast að niðurstöðu? Af hverju reynum við ekki að skapa sátt í samfélaginu um þetta?

Við eigum þessa auðlind saman og við leigjum hana út til vissra aðila og þeir hafa aldeilis gert þetta vel, það verður að segjast eins og er, á síðustu árum. Íslenskir útgerðarmenn eru þeir fremstu í heimi, það er bara svoleiðis, ég fer ekkert ofan af því. Þegar illa árar og þrengir að eiga þeir að stíga til baka og hjálpa til, meira en gert er. Þeir borga náttúrlega tekjuskatt og tryggingagjald og það allt saman en það gera líka allir aðrir, öll önnur fyrirtæki. En þeir hafa aðgang að þessari auðlind og gríðarlega margir hafa auðgast svakalega á auðlindum þjóðarinnar. Ég sé ekkert eftir því, verði nógu margir nógu ríkir, en þá mega þeir líka borga til samfélagsins eins og við hin, og meira.

Það er líka talað um tekjustofna sveitarfélaga og hvernig á að efla þá. Ótrúlega margir í sveitarfélögunum borga bara fjármagnstekjuskatt, það eru mörg dæmi um það, borga nánast ekkert til samfélagsins.

Ég veit það ekki, en ég veit að þetta er ekkert auðvelt. Ég öfunda ekkert endilega fjárlaganefnd að þurfa að takast á við það verkefni að koma fjárlögum frá sér á hverju ári. Það er gríðarleg vinna, ótrúlega margir póstar sem þarf að skoða. Þess vegna finnst mér að við ættum að leggja enn þá meiri áherslu á að vinna þetta saman, þvert á flokka, miklu meira í sameiningu frekar en að láta þetta vera kannski gert í fjármálaráðuneytinu af embættismönnum þar. Það er síðan mikil barátta að ná í pening fyrir hin og þessi verkefni.

Eitt af því sem ég hef tekið eftir og uppgötvað sem þingmaður á ferðum mínum um kjördæmið og út um allt er þessi ótrúlega óvissa sem alls staðar ríkir. (Gripið fram í.) Fólk er alltaf í óvissu. Það veit aldrei hvernig verður á næsta ári. (Gripið fram í.) Já, þannig er lífið. En við gætum til dæmis gert þetta eins og er gert í sveitarfélögunum þannig að fólk hefði þriggja ára áætlun. Í alvörunni. Það hafa komið gestir fyrir nefndir sem segja að meiri partur ársins fari í að reyna að ná endum saman og að berjast fyrir sínu í næstu fjárlögum. (Gripið fram í: … stofnanir.) Ég er meðal annars tala um hagsmunasamtök og aðra aðila sem eru háðir því að fá styrki úr ríkissjóði. Það er eilíf óvissa.

Ég velti líka fyrir mér síðasta kjörtímabili og af hverju við miðum alltaf við fjögur ár, af hverju vinnum við ekki meira að framtíðarsýn? Kjörtímabil er fjögur ár. (Gripið fram í: Opinberu fjármálin.) Já, það er mjög jákvætt skref sem allir fagna. En hvernig viljum við hafa samfélagið okkar? Ég veit að minnsta kosti að Ísland er gott samfélag, menn deila um það, en það er alveg á hreinu. Það getur enginn farið í grafgötur með það. En það er samt víða pottur brotinn sem við gætum hæglega lagað með því að sækja meiri tekjur. Menn hafa talað um auðlegðarskattinn, hann er mjög umdeildur, að það hefði átt að breyta honum. Ég veit það ekki. Kannski segir maður það og getur trútt um talað hér í ræðustól, en ef ég ætti fleiri hundruð milljónir þá mundi ég ekki sjá eftir því að borga 1,5% auðlegðarskatt af mínum auð sem ég hefði náð í hjá þjóðinni, jafnvel af auðlindum þjóðarinnar.

Ég held að það séu gríðarleg tækifæri hjá okkur á mörgum sviðum. Ferðaþjónustan til dæmis, gistináttagjaldið, að hækka það. Eitt af því fyrsta sem þessi ríkisstjórn tók af 7% hækkun á gistináttagjaldi. Það var það fyrsta eiginlega sem hún gerði. Hún sló af fjárfestingaráætlun, hún sló af sóknaráætlun landshluta sem voru að mínu viti frábær verkefni sem voru unnin út um allt land af fleiri þúsund manns. Þjóðfundur og fólk í sveitarfélögum. Ég man eftir því í fyrstu ferðunum út í kjördæmi eftir að það hafði verið gert. Það var svakalegt. Við þingmenn vorum kallaðir liðleskjur og aumingjar, meira að segja ég sem kom ekki nálægt þessu. En svona er þetta. Menn þurfa að hafa breitt bak sem stjórnmálamenn (Gripið fram í: Það má nú segja.) en ég trúi því að við séum öll að reyna að gera vel. Okkur greinir á um hina og þessa hluti en við eigum að setja almannaheill í öndvegi og við eigum að hlusta á það sem þjóðin segir. Við eigum að hlusta á það sem fólk er að tala um. Ef 95% þjóðarinnar vilja að öryrkjar og eldri borgarar séu með svipuð laun og lægstu laun þá á að gera það. Þjóðin vill það. Það eru 90% sem vilja að við leggjum höfuðáherslu á að setja pening í heilbrigðiskerfið. Það hefur vissulega verið sett meira í heilbrigðiskerfið, það er rétt, ég er ekkert að vefengja það. Það hefur verið settur meiri peningur, en það er bara ekki nóg. Þetta er ekki að gera sig. Ég hlusta á fólk sem vinnur dags daglega við þetta og það er að þrotum komið. Alveg komið að þolmörkum. Ég veit það ekki. Ég er stundum alveg gáttaður á þessu. (Gripið fram í: Ertu bara búinn á því?) Ég er alveg búinn á því, svei mér þá, frú forseti.

Í alvöru talað, við stöndum hérna og rífumst um þetta en það er alveg vitað hver vilji þjóðarinnar er en við förum ekki eftir honum. (Gripið fram í: Rétt.) Þetta er eins og t.d. með aðildarviðræðurnar að ESB. (Gripið fram í: Hvað segirðu?) 85% þjóðarinnar vildu klára þær. Af hverju gerðum við það ekki? Fyrir hverja erum við að vinna ef við erum ekki tilbúin að gera þetta? Það var náttúrlega mjög stórt loforð. Verðtryggingin var líka eitt loforðið. Af hverju er hún ekki farin? Af hverju takið þið hana ekki af? Þjóðin vill það. (Gripið fram í.) Þjóðin vill verðtrygginguna í burtu (Gripið fram í.) og þið lofuðuð því.(Gripið fram í: Ekki ég. ) (VigH: Lestu nú úr bókunum.) Þetta eru góðar bækur. Ég mundi hvetja alla þingmenn til þess að eignast þessar bækur. Lesa þær, meta gildin í samfélaginu, hvernig við byggjum gott samfélag samstöðu og samlíðunar þar sem við tökum tillit til hvers annars. Komum fram af auðmýkt, ekki hroka. Auðmýkt er mjög góð dyggð. Sá sem er auðmjúkur er mjúklyndur í hjarta og hann tekur tillit til þess sem aðrir gera og finnst til um annarra verk. Mér finnst skorta svolítið á það hjá okkur hér, og jafnvel Íslendingum. Ég hef sagt það áður í ræðustól. Við þurfum að auka samfélagskennd á Íslandi. Það hlýtur að segja svolítið mikið um það að skattsvik á Íslandi nemi 80 milljörðum. 80 milljarðar. Það er enginn smápeningur.(VigH: Það mætti gera margt fyrir þá.) Já. Það mætti gera mikið fyrir þá. (Gripið fram í: Nýjan spítala.) Við eigum náttúrlega að vera fyrir löngu byrjuð á nýjum spítala, það er alveg ljóst, og það hefði gefið rosalegt, hvað get ég sagt, „búst“, (Gripið fram í: Trukk.) já, trukk í samfélagið. Í alvörunni. Það er okkar verk, við eigum að veita þjóðinni styrk og von. (Gripið fram í.) Við eigum að gera það. Við eigum að leggja okkur öll fram við það.

Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki auðvelt að setja saman fjárlög og það er víða pottur brotinn. Ég velti líka fyrir mér eins og með samgöngur, löggæslumál, það er verið að leggja meiri pening í þetta, en tökum sem dæmi Suðurland, ég er nú úr Suðurkjördæmi. Ég held að nánast hver einasti ferðamaður sem til Íslands kemur fari um Suðurland upp að Gullfossi og Geysi. Vegirnir þarna eru skelfilegir, ótrúleg umferð, álag og áreiti á íbúa fyrir utan allar einbreiðu brýrnar í Suðurkjördæmi. Þær eru sérkapítuli. Það er alveg ljóst að við verðum að spýta vel í lófana á næstu árum.

Mikið hefur verið rætt um ferðamannaiðnaðinn og hvernig við eigum að fá pening af honum. Við eigum bara að setja komugjald á farþega og nógu ríflegt. Við eigum að vera alveg óhrædd við það. Þetta er gert víða um heim og skapar tekjur fyrir samfélagið til þess að byggja upp þannig að við getum tekið á móti þessu fólki. Ef það er 25–30% aukning á fjölda ferðamanna á hverju ári þá get ég ekki séð hvernig í ósköpunum við eigum að fara að þessu því nú þegar er þetta orðið svakalegt.

Hæstv. forseti. Ég veit það eitt að mér þykir vænt um íslenskt samfélag og mér þykir vænt um samstarfsfélaga mína á Alþingi og ég vil allt til þess vinna að þetta samfélag blómstri og dafni. En við þurfum að laga vinnubrögðin hér og við þurfum að laga framkomu okkar gagnvart hvert öðru og auka veg og virðingu Alþingis og vinna betur saman að mikilvægum málum eins og fjárlögum sem eru stærstu lög ársins sem allt stendur og fellur með, gera það vel og með hag almennings að leiðarljósi fyrst og fremst. Þetta á ekki vera samfélag sem er hagsmunabandalag sérhagsmuna, sem ég held því miður að samfélag okkar sé dálítið mikið. Við fáum ekki eins mikið út úr því sem við eigum og við ættum að gera, ég get nefnt aðra orkulind en sjávarútveginn í því sambandi og auðlind sem er orkan. Það er hlutur sem við eigum að skoða í sameiningu og finna lausn á, hvernig við getum náð meiri pening út úr því til þess að reka gott samfélag. Samfélag sem er opið, tilbúið að taka á móti nýjum íbúum en vísar þeim ekki úr landi. Okkur veitir ekkert af því að fjölga. Við erum eiginlega of lítil eining, of náin, þekkjumst eiginlega of mikið sem kallar oft á spillingu, frændhygli og þar fram eftir götunum.

Frú forseti. Að lokum vil ég segja að við eigum að auka veg og virðingu Alþingis og það gerum við með því að starfa betur saman og hætta að níða skóinn hvert af öðru og garga hér hvert á annað í ræðustól. Hvað gerðir þú og hvað gerði hinn, svona var þetta nú síðast og Icesave og allt þetta bölvaða bull sem allt of mikill tími fer í á Alþingi sem gerir að verkum að fólkið þarna úti hefur ekkert álit á okkur og ber ekkert traust til okkar. Nú síðast í dag var könnun sem sýndi það að 18% þjóðarinnar treystir ríkisstjórninni, en 19% stjórnarandstöðunni og 23% Evrópusambandinu. Það er skrýtin skoðanakönnun. En það er margt sem segir okkur að við þurfum aldeilis að girða okkur í brók eins og sagt er á fótboltamáli. Ég hef trú á íslensku samfélagi og ég hef trú á því að ef við breytum þessu þá bíði okkar björt framtíð.