145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:16]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kom aðeins inn á það í ræðu minni hvernig við eigum að forgangsraða. Við eigum að forgangsraða í þágu þeirra sem lakast standa í samfélaginu. Það er fullt af fólki sem stendur illa en ekki það margir að við getum ekki sinnt því. Þetta er alltaf spurning um það. Ég heyri það ofboðslega oft úti í samfélaginu að bætur séu of háar. Ég er ekki sammála því. Lægstu laun eru bara of lág og hafa alltaf verið.

Það gekk mikið á hér eftir hrun. Þjóðin varð fyrir svakalegu áfalli. Það hefur komið fram hér í dag að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stjórnaði nánast hvernig tekið var á málum á síðasta kjörtímabili, að stórum hluta. En þegar fer að ára vel — eins og ég kom áðan inn á hefur verið hagvaxtarskeið í fjögur, fimm ár og tekjur hafa verið miklar. Við settum 80 milljarða í skuldaleiðréttinguna. Það hefði mátt gera ýmislegt fyrir þann pening fyrir þá sem lakast standa.