145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:23]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar menn lesa upp úr greinum eftir gamla kommúnista um fyrirmyndarsamfélagið er ekki skrýtið að menn tali svona. Heldur hv. þingmaður að hefðum við sett þessi háu veiðigjöld á, sem menn telja að við höfum lækkað, við höfum auðvitað tekið miklu meiri veiðigjöld en síðasta ríkisstjórn gerði en það má víst ekki bera saman, heldur hv. þm. Páll Valur Björnsson að hefðum við frá upphafi haft veiðigjöld með þeim hætti sem menn eru að tala um núna að þessi fyrirtæki hefðu orðið jafn stór og öflug, hefðu fjárfest jafn mikið, hefðu fjárfest í útlöndum þaðan sem megnið af hagnaðinum kemur? Hann kemur ekki hér í útgerð. Hagnaður stóru fyrirtækjanna eins og Granda og Samherja er meira og minna frá útlöndum. Menn þurfa að setja þetta í eitthvert samhengi. Kökunni er ekki skipt þannig að það hafi engin áhrif að taka skatta af fyrirtækjum og það hafi engin áhrif á fjárfestingar. Ef menn hætta að fjárfesta hættir hagvöxtur líka. Það er heildarsamhengi hlutanna sem þarf að huga að. Það snýst hjá okkur um að fá (Forseti hringir.) meiri tekjur, reka ríkissjóð hallalausan og með afgangi og greiða niður skuldir. Þar liggja auðvitað hagsmunir þjóðarinnar. (Gripið fram í: … skattar á Íslandi …)