145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki neitt um áformaða sölu á Tollhúsinu og verð hreinlega að biðla til almennings eða þeirra sem þekkja til að senda þingmönnum bréf. Það gagnaðist svo sannarlega þegar kom að Þjóðskjalasafni Íslands því að eins og ég sagði í ræðu minni þá er ég enginn sérfræðingur í skjölum en varð margs vísari eftir bréfið þaðan.

Mér finnst reyndar eignasala ríkisins vera umhugsunarverð, sérstaklega þegar um er að ræða sölu á húsum sem í er einhver starfsemi sem er fyrir séð að verður að halda áfram. Þá þarf annað húsnæði, hvort sem það er keypt eða leigt, og þá þurfa að liggja fyrir ansi góðar greiningar á því hvað sé hagkvæmast fyrir ríkissjóð. Einnig þegar kemur að húsnæði Alþingis er meiningin að hætta að leigja og byggja hús sem Alþingi á sjálft. Mér finnst svolítið skrýtið að það sé verið að selja eignir á einum stað en verið að byggja á öðrum. Það er ekki mikið samræmi í því.

Varðandi kjör öryrkja þá hefur það margoft komið fram í tölum frá Öryrkjabandalagi Íslands að ráðstöfunartekjur öryrkja séu yfirleitt á bilinu 170–190 þús. kr. Þetta er flókið kerfi og það geta verið ansi margir þættir sem spila inn í sem ráða heildarupphæð bótanna en (Forseti hringir.) margir einstaklingar hafa á bilinu 170–190 þús. kr. til ráðstöfunar á mánuði.