145. löggjafarþing — 52. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Það er ekki hægt að ætlast til að hún þekki til einstakra eignasöluliða. Ég spurði bara ef svo vildi til að hún þekkti til málsins.

Ég vil árétta þann hluta spurningarinnar um kjör lífeyrisþeganna sem lýtur að hækkunum á yfirstandandi ári og hvort það sé eins og sumir hafa haldið fram í umræðunni, að þessi hópur hafi fengið sömu hækkanir og aðrir í landinu á yfirstandandi ári og hvernig það er í laginu.

Svo vegna þess að þingmaðurinn nefndi húsnæði Alþingis þá vekur afgreiðsla fjárlaganefndar á fjármagni til þess verkefnis athygli þar sem yfirstjórn þingsins, forsætisnefnd, hyggst ráðast í nýja byggingu á Alþingisreitnum. Fjárlaganefnd virðist hafa veitt fjármuni til að byggja einhverja byggingu sem aðrir aðilar höfðu áætlanir um fyrir einhverjum áratugum síðan. Ég fæ ekki betur séð en fjármagn hafi verið veitt til verkefnis sem var lagt til hliðar fyrir 80 árum eða svo og enginn er að vinna að en forsætisnefnd muni þvert á móti fá hönnun á nýju húsi á Alþingisreitnum. Þessir fjármunir eru þess vegna nokkuð sérkennilega merktir í tillögum fjárlaganefndar. Það væri gaman að heyra hvort þingmaðurinn hefði skoðun á þessari sérkennilegu málsmeðferð og þessum athyglisverðu ef ekki að segja einkennilegu vendingum um húsnæði Alþingis að undanförnu.