145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[10:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við höldum hér áfram umræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir 2016. Það er hægt að tala mjög lengi um þau fjárlög sem og önnur fjárlög sem þessi ríkisstjórn hefur lagt fram. Áherslur stjórnarandstöðunnar í því að reyna að ná fram einhverjum lagfæringum og úrbótum í þessu vonda frumvarp eru í stórum dráttum þær að koma til móts við þarfir Landspítalans, bæta kjör aldraðra og öryrkja og þeir fái kjör sín bætt afturvirkt eins og aðrir þjóðfélagshópar í þessu landi kjör sín og að Ríkisútvarpið verði ekki skorið niður við trog eins og stefnan virðist vera. Það virðist vera að málið varðandi afnotagjaldið á næsta ári hjá RÚV standi enn þá fast í ríkisstjórn. Hæstv. menntamálaráðherra hefur lýst vilja til þess að gjaldið verði 17.800 kr. á næsta ári en lækki ekki í 16.400 kr. eins og gert er ráð fyrir og hefur komið fram að þetta þýði mjög mikinn niðurskurð hjá þessari menningarstofnun sem fylgt hefur okkur landsmönnum frá 1930.

Ég ætla í upphafi að ræða aðeins um málefni Ríkisútvarpsins vegna þess að það brennur mjög á mér og öðrum landsmönnum og menn hafa vakið athygli á því, m.a. hollvinir Ríkisútvarpsins, hve mikilvægt það er að Ríkisútvarpið sé vel fjármagnað svo það rísi undir sínu mikla menningar- og öryggishlutverki. Ég held að fjölmiðlaflóran sem slík yrði fátækari ef niðurstaðan verður sú að Ríkisútvarpið komi svo illa út úr þessum fjárlögum að það þurfi að standa fyrir miklum niðurskurði á innlendri dagskrá. Það er mjög alvarlegur hlutur fyrir lýðræðisþjóðfélag að veikja þessa stofnun sem er lýðræðislegur vettvangur fyrir pólitísk skoðanaskipti og hlutlausan fréttaflutning.

Stjórnarmenn í Ríkisútvarpinu, Björg Eva Erlendsdóttir, Friðrik Rafnsson og Mörður Árnason, hafa skrifað um þessi mál og mér finnst rétt að koma á framfæri hugleiðingum þeirra. Þau hafa miklar áhyggjur og ég ætla að fara aðeins yfir pistil sem þau settu saman í Vísi á dögunum. Með leyfi forseta, segja þau:

„Mikill meiri hluti landsmanna telur Ríkisútvarpið hluta af tilveru sinni, menningarþátttöku, lýðræðisstarfi, sýn til umheimsins, og vill að þetta almannaútvarp fylgi okkur inn í framtíðina. Landsmenn vilja líka að til séu aðrar öflugar stöðvar og miðlar. Á fjölbreyttum fjölmiðlavettvangi á Ríkisútvarpið að vera í senn kjölfesta og leiðarvísir, stöð með ákveðnar skyldur við samfélagið en ekki bara hluthafa sína, stöð sem býr að sterkri hefð en er nógu öflug og framsækin til að geta fylgt hjartslætti nýrra tíma.

Það sem almannaútvarp Íslands þarf til að sinna hlutverki sínu er fjárhagslegur stöðugleiki og friður um grundvallargildin. Hingað til hefur gengið á ýmsu í fjármálunum en helstu samtök þjóðarinnar, pólitísk, fagleg og menningarleg, hafa staðið þétt á bak við það úrvalslið sem býr til Ríkisútvarpið á hverjum degi — útvarpið í 85 ár, sjónvarpið í næstum 50 ár.

Nú blása aðrir vindar. Í stjórnarflokkunum tveimur eru öfl sem telja rétt að draga úr starfi Ríkisútvarpsins og vilja það jafnvel feigt, nema þá sem smástöð fyrir sérvitringa. Ástæður eru að hluta hugmyndafræðilegar og að hluta virðast þær tengjast einhvers konar hefndarhug sem enginn botnar í. Þessi öfl hamast nú gegn frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra um að upphæð útvarpsgjaldsins verði áfram sú sama og verið hefur. Takist þeim að stöðva frumvarpið verður Ríkisútvarpið af verulegum tekjum, 400–500 millj. kr. Engin ráð eru þá í sjónmáli önnur en harkalegur niðurskurður í launaútgjöldum, uppsagnir og stórskert dagskrá.

Rekstur almannaútvarps þolir ekki slíkt högg. Hættan er sú að smám saman yrði dagskrá sjónvarps og útvarps svo dapurleg að áhorfendum og áheyrendum fækkaði, tekjur af auglýsingum drægjust saman og almennur stuðningur minnkaði. Stöðin mundi smám saman lamast – hætta að skipta máli — án þess að aðrir hefðu vilja og bolmagn til að gera okkur öllum það gagn sem Ríkisútvarpið gerir á hverjum degi.“

Í lok greinarinnar heita þessir stjórnarmenn á almenning að koma Ríkisútvarpinu til hjálpar og gera ráðherrum og þingmönnum ljóst að ekki má lama almannaútvarpið.

Ég tek heils hugar undir orð þessara þriggja stjórnarmanna hjá RÚV og lýsi alvarlegum áhyggjum yfir því ef ekki næst fram að gjaldið haldi áfram að vera 17.800 kr. Ég held að hver einasti landsmaður sjái ekki eftir þeim aurum til að halda við hlutverki þessarar miklu menningarstofnunar. Eins og sagt er, enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, og er hætt við því að erfitt verði að snúa þróuninni við ef mönnum innan ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans tekst það ætlunarverk sitt að veikja svo Ríkisútvarpið að það verði ekki svipur hjá sjón.

Mig langar í framhaldi af þessu að ræða um hvernig ríkisstjórnin hefur forgangsraðað í ríkisfjármálum frá því að hún tók við völdum og fengið í raun alla upp á móti sér nema kannski þá sem eiga eitthvað undir sér, stórefnafólk og stórfyrirtæki, stórútgerðir og aðra. Smátt og smátt hefur ríkisstjórninni tekist að fá almenning í landinu upp á móti sér vegna kolrangrar forgangsröðunar og það er mjög alvarlegt að horfa upp á það að innviðir samfélagsins hafa á ekki lengri tíma en þessum tæpu þremur árum verið að veikjast. Forgangsröðunin hefur verið kolröng. Skattstofnarnir hafa veikst sem skilar sér í því að innviðirnir fá ekki fjármagn til að byggjast upp og forgangsröðunin er að létta sköttum af þeim efnameiri og að einfalda regluverkið, einfalda eftirlitshlutverkið með ýmsum stofnunum og létta álögum af þeim sem mest og best hafa það í þjóðfélaginu, hvort sem það er ríka fólkið eða stórfyrirtæki. Orkuskatturinn á að hverfa af stórfyrirtækjum landsins um áramótin, auðlegðarskatturinn var ekki framlengdur og veiðigjöldum var aflétt af stórútgerðinni í skjóli þess að verið væri að leiðrétta veiðigjöld gagnvart minni og meðalstórum útgerðum. Það var langt frá því að verið væri að gera það heldur var fyrst og fremst verið að létta á þessum stóru. Þær aðgerðir sem sneru að minni og meðalstórum útgerðum voru mjög handahófskenndar og hafa ekki skilað sér sem skyldi heldur var þetta flatt yfir allt og nýttist þeim sem hafa ekkert með þetta að gera.

Menntamálin. Sá málaflokkur einn og sér er mikið áhyggjuefni og í raun er gerð aðför að menntun í landinu og menntun hjá því fólki sem þarf virkilega að fá stuðning og gott aðgengi að því að geta menntað sig í heimabyggð. Það er ráðist gegn því fólki með því að setja takmörk við inngöngu í bóknám í framhaldsskólum, 25 ára aldurstakmark, og að fækka nemendaígildum sem þýðir að skólarnir geta ekki tekið við öllum þeim nemendum sem óska eftir því. Þar með er fólk hrakið frá námi og ef ekki betur vill til hrekst það úr heimabyggð sinni sem það gerir nauðugt viljugt ef það ætlar að reyna að afla sér menntunar. Það er mikill tilkostnaður að rífa sig upp með rótum og borga nám í einkageiranum með tilheyrandi kostnaði og ekki ráða allir við það. Það eru skrýtin skilaboð þegar hæstv. menntamálaráðherra ræðir um að efla læsi og annað því um líkt en ræðst svona harkalega að þeim hópum sem veikastir standa og eru að reyna að ná sér í menntun til að efla stöðu sína á vinnumarkaði og styrkja sig.

Heilbrigðiskerfið hefur ekki riðið feitum hesti frá því að ríkisstjórnin tók við. Þar hefur verið sama sagan, niðurskurður og það sem lagt hefur verið inn í heilbrigðiskerfið hefur langt í frá verið nægjanlegt. Við vitum að heilbrigðiskerfið fór illa út úr hruninu og það átti að vera eitt af því sem yrði í forgangsröðun eftir að efnahagur landsins færi að batna, sem hann er vissulega að gera. Efnahagur landsins er að batna en í stað þess að við sjáum einhvern alvörutekjuafgang hjá ríkinu og að forgangsraðað sé í þágu þeirra málaflokka sem hafa farið illa út úr afleiðingum hrunsins, þá sker ríkið svo hressilega niður í öllum sínum tekjustofnum og afléttir sköttum að sá tekjuafgangur sem liggur fyrir byggist kannski fyrst og fremst á tekjum frá liðum sem eru ekki fastir í hendi, óreglulegum liðum eins og arði frá Landsbankanum. Það er ekki gott til framtíðar að byggja á slíku ef rekstur ríkissjóðs stendur ekki undir sér og er ekki sjálfbær. Það hefur verið slegið á að ríkið hafi afsalað sér tekjum frá því að ríkisstjórnin tók við upp á vel yfir 40 milljarða fyrir utan hvernig er forgangsraðað.

Velferðarkerfið er mjög veikt og til eru sorgleg dæmi um að sjúklingar sem þurfa á dýrum lyfjum að halda ráði varla við að greiða þau eins og krabbameinssjúklingar sem eru á göngudeild og þurfa að borga úr eigin vasa háar fjárhæðir, maður hefur heyrt mörg slík dæmi, og af öðrum sem eru með langvinna sjúkdóma sem geta ekki staðið undir háum greiðslum vegna lyfja. Þetta á ekki að líðast í samfélagi sem er jafn vel statt og við Íslendingar erum í raun í samanburði við önnur lönd.

Almenn löggæsla í landinu stendur líka illa. Núna setur ríkisvaldið um 400 millj. kr. að mig minnir í þann málaflokk en hætt er við því að það sé eingöngu til að mæta uppsöfnuðum skuldum og niðurgreiða þær, málaflokkurinn hafi verið kominn í það mikinn mínus að féð gangi fyrst og fremst upp í það en fari ekki til að efla almenna löggæslu sem mikil þörf er á. Víða um land þar sem maður þekkir til eru lögregluembætti fámenn eða fáliðuð og jafnvel einn maður á vakt og það er auðvitað ekki hægt að ætla neinum að bera ábyrgð á því að vera einn á vakt á stóru svæði.

Sóknaráætlanir og byggðaáætlanir koma ekki vel út í fjárlagafrumvarpinu. Þegar ríkisstjórnin tók við var fjármagn til sóknaráætlunar um 400 millj. kr. Núna eru um 235 millj. kr. lagðar í sóknaráætlanir og á síðasta ári voru það eingöngu 100 millj. kr. en viðbótarframlag var upp á 15 millj. kr. Þetta eru auðvitað allt of litlir fjármunir í svo veigamikinn málaflokk því þetta er byggðastefna í verki, í framkvæmd. Þarna fá landshlutasamtökin tækifæri til að vinna í nærumhverfi sínu með fjármuni og forgangsraða og nýta til góðra verka. Núverandi ríkisstjórn hefur tekið þá ákvörðun að taka þetta í fangið á sér, setja lítið hér og lítið þar og deila úr einhverjum pólitískum potti vítt og breitt um landið. Ég er ánægð með hverja einustu krónu sem kemur til þarfra verka úti á landsbyggðinni en ég vil líka að allir sitji við sama borð, þetta sé unnið faglega og heimamenn komi að því hvernig fjármununum er útdeilt, þetta sé gagnsætt ferli sem allir geti treyst og það fái ekki þann stimpil á sig að eitthvert kjördæmapot sé á ferðinni. Ég er orðin hundleið á þessari orðræðu um kjördæmapot, að allt sem fari út til landsbyggðarinnar í uppbyggingu flokkist undir kjördæmapot.

Hvers vegna er þetta kallað kjördæmapot? Ég held að það sé okkur stjórnmálamönnum eða þeim stjórnmálamönnum sem hafa í gegnum tíðina ráðið ríkjum að kenna vegna þess að þeir hafa oftar en ekki tekið þetta í fangið á sér og gert að einhverju sem menn útdeila. Menn komi til stjórnmálamanna með betlistaf, fénu er útdeilt og einstaka þingmenn eiga að fá einhverjar sérstakar þakkir fyrir þetta framlag hér og þetta þar. Mér finnst að það eigi ekki að vera þannig. Stefna hvers stjórnmálaflokks og áherslur eiga að liggja fyrir og þeir flokkar sem vilja jöfnuð í landinu og að landshlutarnir sitji við sama borð og það ríki jöfn tækifæri hvar sem maður býrð á landinu eiga að lýsa því yfir í ríkisfjármálaáætlun og það komi fram og sýni sig í fjárlögum hvað lagt er í slíka málaflokka. Féð er síðan sett í þann farveg sem búið að ákveða að setja af stað eins og sóknaráætlun í þessu tilfelli og nýta þá ferla sem eru mjög góðir og lýðræðislegir og hefur ríkt mikil ánægja með, sama hvar í flokki menn standa. Mér finnst ríkisstjórnin setja niður við það að hún kallar áfram á þessa gagnrýni um kjördæmapot, kjördæmapot ef einhverjir peningar, einhverjar krónur fást til uppbyggingar úti á landsbyggðinni. Það er vont fyrir landsbyggðina að það sé gert undir þeim formerkjum.

Samgöngur heilt yfir eru vanfjármagnaðar og það er ríkisstjórninni algerlega til skammar. Svo hefur verið talað fjálglega um það að búið sé að jafna orkukostnað í landinu. Ég ætla nú bara að vera persónuleg í lok ræðu minnar og segja að ég gef ekkert fyrir slíkan jöfnuð. Ég rek heimili vestur á fjörðum, í Súgandafirði, þar kostar miðað við þann reikning sem ég fékk núna á dögunum á ársgrundvelli að kynda og borga rafmagn af 160 fermetra húsi 400 þús. kr. Hvað ætli það kosti á höfuðborgarsvæðinu? Ætli það muni ekki um helmingi? Ef þetta er jöfnuður (Forseti hringir.) þá veit ég ekki hvað jöfnuður er. Það er að minnsta kosti ekki sá jöfnuður sem ég vil sjá en er kannski jöfnuður í augum þessarar ríkisstjórnar.