145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[10:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á árinu 2016 er áætlað að útvarpsgjald verði 16.400 kr. Meiri hluti fjárlaganefndar hefur gert að tillögu sinni að útvarpsgjaldinu öllu verði skilað eins og ríkisstjórnin sem nú starfar hefur staðið fyrir og hóf það ferli að byggja upp Ríkisútvarpið (Gripið fram í.) með hækkunum eins og sést á töflu í nefndaráliti meiri hlutans á bls. 10. Það er annað en hægt er að segja um tíð fyrri ríkisstjórnar sem tók á sínu tímabili 500 milljónir út úr rekstri RÚV, (BjG: Af hverju var það nú aftur?) 500 milljónir (Gripið fram í: Hvað gerðist 2008?) út úr rekstri … Fyrirgefðu, virðulegi forseti, er hægt að fá hljóð í salinn? 500 milljónir út úr rekstri RÚV. Þessi ríkisstjórn hefur skilað útvarpsgjaldinu síðan hún tók við og svo verður áfram.

Hér er gerð þessi tillaga vegna þess að notendur eru fleiri og vegna tekjuauka í samfélaginu bætast við greiðendur sem greiða til RÚV sem skilar Ríkisútvarpinu 60 millj. kr. á milli ára. (BjG: Af hverju …?) Þegar árið 2016 er liðið hefur Ríkisútvarpið fengið til sín 3.550 millj. kr., rúmlega 3,5 milljarða. Geri aðrir betur. Fólk hefur samband við mig og telur að þetta fjármagn eigi frekar að fara til heilbrigðiskerfisins eða til að styðja fátækar fjölskyldur en svona eru lögin (Forseti hringir.) og þessi ríkisstjórn vinnur samkvæmt lögum.