145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[10:30]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það vita allir nema kannski hv. þm. Vigdís Hauksdóttir að hérna varð hrun 2008. (VigH: … hrun.) Það þurfti að skerða marga málaflokka. Ríkisútvarpið þurfti eins og aðrir að gjalda þess niðurskurðar og það kom fram í því að útvarpsgjaldið skilaði sér ekki að fullu, en það átti að gera það þegar fram í sækti með hækkun í framhaldinu. (VigH: Hækkun?) Hækkun á gjaldinu upp í 19 þúsund … (VigH: 18.800 var það sett.) Já, 18.800 kr. (Gripið fram í.) Árið 2011 var ákveðið að gjaldið yrði 18.800 kr.

En þessi leikur að tölum er dæmigerður. Það er verið að leika sér með tölur og þótt staðreyndirnar segi 16.400 kr. útvarpsgjald og þótt það skili sér að fullu dugar það ekki til að fjármagna Ríkisútvarpið. Það er eins og menn loki öllum vitum og vilji ekki hlusta og vilji ekki skilja og vilji ekki horfa á staðreyndir. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að tala þannig.

Hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, gerir í því að tala niður Ríkisútvarpið og etja málaflokkum saman, nú er allt í einu nógu gott að fjármagna heilbrigðiskerfið og það á að taka það frá Ríkisútvarpinu, láta þessar grunnstoðir samfélagsins bítast um eitthvað sín á milli frekar en að forgangsraða rétt í þessu þjóðfélagi í þágu velferðarkerfisins í þágu menningar og lýðræðislegra miðla eins og Ríkisútvarpsins. Í stað þess á alltaf að forgangsraða fyrir þá efnameiri og stórfyrirtæki í landinu. (VigH: Segðu satt.) Ég segi alveg satt, frú Vigdís Hauksdóttir, þú veist það. Sannleikurinn er kannski ekki eins í mínum huga og þínum, það er kannski vandamál sem ég get ekki leyst í þessum ræðustól.