145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[10:52]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanns. Við erum hér að ræða fjárlög og inn detta milljarðatillögur og við vitum ekki hver heildarjöfnuðurinn verður samkvæmt þessu á árinu 2016. Erum við enn að tala um hallalaus fjárlög eða er skuldasöfnun hafin að nýju með hallarekstri? Það vitum við ekki og heyrum bara af tölum sem detta inn. 1,2 milljarðar eru nýkomnir hingað vegna skekkju við útreikning á kjarasamningum kennara þannig að ég get ekki annað en tekið undir orð hv. þingmanns þegar hann segir að það sé sannarlega ástæða til að gera hlé á umræðu um þetta mál og taka það inn í nefndina til að fara betur yfir stöðuna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um skilaboð sem meiri hluti fjárlaganefndar er að senda hæstv. ríkisstjórn um hvað honum finnist eiga að vera forgangsverkefni er varðar íþyngjandi löggjöf. Meiri hlutinn telur að eftirlitsstofnanir búi við íþyngjandi löggjöf og telur mikilvægt að ríkisstjórnin fari í að finna út úr því hvernig hægt væri að einfalda það. Þar er beðið sérstaklega um að haft sé, eins og stendur í álitinu ef ég man rétt, samráð við þær atvinnugreinar sem eftirlitsstofnanirnar þjóna. Ég hefði haldið að eftirlitsstofnanir væru til fyrir neytendur og almenning. Ég spyr hv. þingmann hvað honum finnist um þessi skilaboð og þær áherslur sem meiri hluti fjárlaganefndar setur í þessu samhengi.