145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[10:59]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er alveg hárrétt sem fram kemur hjá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, það er mjög einkennilegt að færa til bókar og gera ráð fyrir hluta af áhrifum stöðugleikaframlaganna í fjárlögum, þ.e. til lækkunar á vöxtum í þessu tilfelli, en taka það ekki inn að öðru leyti. Menn velja sér eitthvað til að kippa inn í fjárlögin til að þau slefi réttum megin við núllið, þvinga töluna niður fyrir núll með einhverju móti, en síðan í umræðunni á þeim dögum sem hér eru að líða hver af öðrum — ég ætla að vona að þessi umræða taki nokkra daga í viðbót því að það dettur inn að jafnaði 1–1,5 milljarðar á dag [Hlátur í þingsal.] gjaldamegin í þessari 2. umr. fjárlaga á fjárlagafrumvarpi með tillögum meiri hlutans. Það er allt komið í mínus. Það verður mínustala á uppgjöri næsta árs samkvæmt þessu frumvarpi í fyrsta skipti frá árinu 2013. Þvílíkt metnaðarleysi, þvílíkur ræfildómur í fólki að geta ekki rekið ríkissjóð á núlli með 140 milljarða kr. meiri tekjum en við lukum síðasta kjörtímabili á. Hugsið ykkur að það skuli vera Sjálfstæðisflokkurinn sem rekur hér fjármálaráðuneytið og að þetta gerist undir hans stjórn, það er með eindæmum.

Ef á að taka inn í fjárlög uppgjörið á þrotabúunum hlýtur að verða að ljúka því líka með einhverjum hætti við lok árs eins og með allt annað sem kemur inn í fjárlög. Því sem fer inn í fjárlög þarf væntanlega að ljúka, fyrst með fjáraukalagafrumvarpi, síðan lokafjárlögum og loks ríkisreikningi. (Forseti hringir.) Það er ekkert kveðið á um það hérna, ekki neitt. Það eru bara teknar inn tölur sem henta um lækkun vaxtakostnaðar vegna stöðugleikaframlags en að öðru leyti kemur þetta ekki hér inn.