145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:01]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni fyrir að ræða þetta seðlabankafrumvarp. Í gær, 11. desember, átti þessu þingi að ljúka samkvæmt starfsáætlun. Nei, nei, nei, nei, þann dag kom inn nýtt frumvarp um breytingar á utanumhaldi um eignir í ranni Seðlabankans. Ég brá mér rétt aðeins af bæ í gærkvöldi og varð frekar hvumsa þegar ég sá að ég hafði misst af heilu stórmáli. Ég spyr þingmanninn, af því að ég hafði ekki tök á að fylgjast nógu vel með þessu enda var ég fjarverandi af því að ég hafði öðrum skyldum að gegna: Er nauðsynlegt að afgreiða þetta mál fyrir jól? Ég er satt best að segja orðin ansi hugsi. Mér skilst að í fjárlaganefnd sé að koma mál um sjúkratryggingar sem mér skilst að þurfi að afgreiðast fyrir jól. Það er nýkomið inn í þingið og ekki búið að mæla fyrir því. Síðan bætist þetta mál við. Síðan er fast í ríkisstjórn frumvarp um málefni RÚV. Þar er ekki sami gassagangurinn enda um að ræða hjartans mál fyrir íslensku þjóðina og kannski ekki mikill vilji til að dekra eitthvað við almenning með því að viðhalda almannaútvarpi sem bragur er á. Við erum með í algjöru uppnámi lífeyrismálin, heilbrigðismálin og svo er hér einhver skrýtin störukeppni í gangi varðandi Þróunarsamvinnustofnun, mál sem stjórnarliðar styðja ekki einu sinni en við í minni hlutanum höfum haldið uppi vörnum fyrir.

Fyrra andsvar mitt vil ég nýta til að spyrja þingmanninn: Kom eitthvað fram hér í gærkvöldi um hvað ríkisstjórnin ætlast fyrir (Forseti hringir.) með þetta seðlabankafrumvarp?