145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:03]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér vitanlega kom ekkert fram um það. Þessu frumvarpi var bara laumað í rekka og tilkynnt um það af forsetastóli að búið væri að leggja það fram, enda hefur enginn ráðherra sést í þessari umræðu. Það stendur í frumvarpinu að getið skuli um áætlað söluverð og ráðstöfun eigna vegna stöðugleikaframlagsins í fjárlögum. Það stendur hér skýrum stöfum. Hvað þýðir það? Það þýðir að það þarf að afgreiða þetta frumvarp áður en fjárlög eru afgreidd. Maður setur ekki eitthvað inn í fjárlög sem þegar hafa verið samþykkt, það er útilokað mál. Það er ekki hægt að lesa þetta frumvarp öðruvísi en að það þurfi að afgreiða það með flýti fyrir 3. umr. fjárlaga. Þetta er risamál, það hleypur á tugum ef ekki hundruðum milljarða króna, félag sem ætlað er að taka við eignum, breyta eignum, verðmætum í laust fé, fyrir utan bankastofnanir sem Bankasýslan fær í sínar hendur, sem við vitum ekki einu sinni hverjar eru. Við höfum ekki fengið upplýsingar um það. Það kom ekki fram í samkomulagi stjórnvalda við hrægammana hvaða eignir þetta eru.

Það er ómögulegt að halda þessari umræðu áfram nema fá upplýsingar um þetta. Ég krefst þess að fjármálaráðherra sem væntanlega ber ábyrgð á þessu frumvarpi verði boðaður til þings til að ræða þetta mál og gera grein fyrir því (Gripið fram í.) til hvers hann ætlast með þetta, hvort hann vill fá þetta afgreitt og hvernig í ósköpunum það á þá að gerast nema með einhverju ofbeldi hér fyrir 3. umr. Þetta er eitt af stærstu málunum sem hefur rekið á fjörur okkar á þinginu og við eigum ekkert að láta neinn ráðherra valta yfir okkur með þessum hætti þó að meiri hluti fjárlaganefndar virðist láta það viðgangast eins og má lesa af nefndaráliti þar sem hreinlega ekkert mark er tekið á því sem hann segir ár eftir ár. (Forseti hringir.) Meiri hlutinn kvartar yfir því í nefndarálitinu, en við látum við ekki valta yfir okkur. Við skulum standa í fæturna og fá upplýsingar um það sem hér á að gera og ræða málin eðlilega. Ég óska eftir því að fjármálaráðherra verði ræstur út og boðaður í þingsal til að ræða þessi mál.