145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:08]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Mín afstaða í því er algjörlega skýr. Ég get ekki séð með nokkru móti hvernig þingið, hvað þá fjárlaganefnd, formaður fjárlaganefndar með smásjálfsvirðingu og metnað fyrir sínu starfi og sinni nefnd — slíkur formaður mundi standa hér en ekki ég, gera kröfur og spyrja hvað í ósköpunum væri að gerast hérna. Hvað er eiginlega hlaupið í menn? Hvers vegna detta inn milljarðar á milljarða ofan eins og formaðurinn lýsir í fjölmiðlum í gær? Hún kallar þetta glöp embættismanna í fjármálaráðuneytinu. Þau geta ekki einu sinni tekið ábyrgð á sínum eigin verkum sjálf heldur vísa þau á starfsfólk Stjórnarráðsins. Þetta eru bara mistök, þau gera alltaf mistök uppi í fjármálaráðuneyti. Það eru ekki gerð mistök hér, nei, heldur betur ekki. Hér standa menn aldeilis í fæturna.

Þetta eru kaldar kveðjur til þess fólks sem lítið hefur verið fjallað um í eftirmálum hrunsins en vann líklega ein mestu afrek sem unnin voru hér til að reisa landið við og bjarga því. Því fólki sem þar starfar verður seint fullþakkað. Það er óþarfi og lítilmannlegt að senda því fólki kveðjur af því tagi sem hv. formaður fjárlaganefndar gerði í fjölmiðlum í gær.

Það lagafrumvarp sem hér er komið er svo stórt og hefur svo mikil áhrif að við komumst ekki undan því að ræða það í tengslum við fjárlagagerð næsta árs. Það er útilokað mál. Ég ítreka ósk mína um að fjármálaráðherra verði boðaður til þings til að ræða þetta mál og ég fer fram á að fundi verði frestað á meðan og umræðunni sömuleiðis þar til fjármálaráðherra er kominn í hús þannig að við fáum úr því skorið hvort (Forseti hringir.) hann gerir kröfu til þess að þetta mál verði afgreitt fyrir jól. Sé það þannig getum við ekki haldið þessari umræðu áfram.