145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það má með sanni segja að fjárlagafrumvarpið sé lifandi plagg hjá frú formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Það er nefnilega þannig að með sólarhrings millibili detta inn milljarðar í aukin útgjöld eða tapaðar tekjur ríkisins, 1,2 milljarðar í fyrradag sem gleymdust vegna kennara og 1,5 milljarðar í gær vegna samninga við sveitarfélögin um málefni fatlaðra. Svo bætast við þær upplýsingar sem hér tengjast örlætissamningum ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við kröfuhafa sem eru svo góðir að þeirra mati að þeir flykkjast til landsins og samþykkja stöðugleikaframlögin með 99% lófataki.

Ríkisstjórnin ætlar hins vegar að taka inn lægri vaxtakostnað vegna þess að það á að greiða niður skuldir með einhverjum hluta þessara stöðugleikaframlaga. En hvernig á að bókfæra tekjurnar? Eiga þær ekki koma inn hinum megin? Ég hafði haldið það. Auðvitað hefur þetta verið svarthol sem ríkisstjórnin kemst ekki undan að fara að svara þannig að ég held að það sé langeðlilegast að fresta þessari umræðu, fundurinn með fjármálaráðherra (Forseti hringir.) fari fram og þar verði meðal annars metið hvort ekki verður að gefa fjárlaganefnd einhvern tíma til að skila inn nýju nefndaráliti og nýju yfirliti yfir horfurnar um ríkisfjármálin á næsta ári. Þetta er allt á fullri ferð og svona sviptingar við afgreiðslu fjárlagafrumvarps eru ekki boðlegar.