145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:20]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér þykir alveg makalaust að við séum endalaust að ræða um hver gerði hvað á síðasta kjörtímabili, sérstaklega núna þegar við erum að reyna að horfa aðeins fram á veg, ekki síst í ljósi þess að við erum komin í eitthvert svokallað góðæri þrátt fyrir að margir sjái það ekki.

Hins vegar langar mig að gera athugasemd við það verklag sem forseti hefur haft með að hleypa ekki aðalmönnum inn eftir veru í París á loftslagsráðstefnunni. Það er alveg út í hött að við drögum inn varamenn á sjötta degi þings og suma lengur. Það er aðventan og margir eru búnir að gera ráðstafanir með börnum sínum og gerðu ekki ráð fyrir að þurfa að funda hérna fram eftir öllu. (Gripið fram í.) Já, það er góð spurning. Ef aðalmaður er kominn heim, er þá ekki kominn tími til að varamaður fari út, sérstaklega þegar aðalmaður er búinn að vera úti í fimm daga eins og lög gera ráð fyrir? Er ekki allt í lagi að íhuga það hvernig fyrirkomulagi (Forseti hringir.) aðalmanna og varamanna er háttað og því um líkt?