145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp um fundarstjórn forseta því að hér er búið að fara með miklar blekkingar. Í breytingartillögum minni hlutans er lagt til að ríkissjóður taki tekjur af stórnotendum til framtíðar upp á 2 þús. milljónir.

Ég er hér með blað frá 13. ágúst 2010 sem ég ætla að lesa upp úr, virðulegi forseti:

„Eins og fram kom í bréfi hinn 15. júní sl. eru ekki uppi áform um annað en að virða ákvæði þess samkomulags sem er að finna í sameiginlegri yfirlýsingu fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra annars vegar og Samtaka atvinnulífsins og stórnotenda á raforku hins vegar. Það felur í sér að ekki verði lagðir frekari skattar á stórnotendur raforku sem slíka á gildistíma samkomulagsins.

Ekki eru heldur uppi af hálfu ráðuneytisins önnur áform um sérstakar skattbreytingar sem tengjast mundu stóriðjuframkvæmdum einum saman þannig að raskað gæti forsendum fjárfestinga þeirra.“ (Forseti hringir.)

Undir þetta skrifar þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, og hefur bundið hendur stjórnvalda til framtíðar.