145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka undir þá ósk að við frestum fundi þar til hæstv. fjármálaráðherra kemur í hús og getur rætt við okkur. Sömuleiðis langar mig að mótmæla því kappi sem verður á umræðunni þegar líður á starfsáætlun. Það er mjög sjálfsagt að þingmenn hafi næði og tíma til að kynna sér gögn til hlítar og hlusta á ræður. Hins vegar er tilhneigingin sú að funda fram yfir miðnætti dögum saman. Ef ætlunin er að þingmenn hlusti á ræður sem eru enn mjög efnislegar og ítarlegar, og í gær voru þingmenn enn að flytja sína fyrstu ræðu, verða þingmenn að hafa svigrúm til að skoða til dæmis ný frumvörp eins og eitt sem kom í gær og ræða þau sín á milli. Þetta er algjörlega sjálfsagt í allri vinnu sem maður notar heilann í yfir höfuð. Ef ætlunin er að við notum heilann í vinnuna hérna þurfum við næði til þess þannig að mér finnst sjálfsagt (Forseti hringir.) að bæta við einum og hálfum klukkutíma undir þessum kringumstæðum.