145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:34]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það kemur greinilega við kaunin á hv. þingmönnum minni hlutans sem fara nú mikinn og æsast svolítið upp þegar verið er að rifja upp tíma síðustu ríkisstjórnar og málsmeðferð á þeim tíma. Það eru algjör rólegheit yfir okkar stjórnarliðum, við erum pollróleg og höfum bara óskað eftir því að hv. þingmenn og þingflokksformenn komi sér saman um það hversu lengi þeir vilja hafa þetta mál á dagskrá og þá er hægt að haga þingstörfum í kringum það.

Það er algilt að fjárlagafrumvarpið fari til nefndar milli 2. og 3. umr. og jafnvel að gerðar séu á því breytingar milli umræðna. Þar fá nefndin og þingmenn tækifæri til að fara yfir þau nýju gögn, þær litlu viðbætur sem bætast við í heildarsamhenginu, (Forseti hringir.) og ég held að því sé engin ástæða til að fresta þessari umræðu. Það er um að gera að halda henni áfram meðan menn eru á mælendaskrá og síðan fer málið í sína málsmeðferð á vegum nefndarinnar.