145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Það fer dálítið tvennum sögum af því hvað stendur til í hádegisverðarhléi. Ég bið hæstv. forseta að upplýsa okkur um það. Eins og ég skil forseta stendur til að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra komi hér í hús og fundi með fulltrúum flokkanna. Við erum að tala um mál af slíku umfangi að það verður ekki við annað unað en að þingflokkar fái síðan að ráða ráðum sínum. Stendur til að fjármálaráðherra tali við einn frá hverjum flokki eða er verið að kalla formenn stjórnarandstöðunnar í hús? Ekki minn formann. Minn formaður hefur engar upplýsingar fengið um það að til standi að funda með fjármálaráðherra kl. 13. (VigH: Er það ekki Marinó?) Hvernig heldur forseti utan um þessa framvindu? Við verðum að ná að stilla hérna saman strengi. Það þarf tíma til að tala um svo stórt mál sem hér er undir. Það verður ekki gert á hlaupum með einhverjum fulltrúum flokkanna. (Gripið fram í.)

Forseti. Er hægt að stilla af (Forseti hringir.) þetta gjamm frá einhverjum þingmanni til hægri í þingsalnum? (Gripið fram í: Útvarp Saga.) Já, Útvarp Saga er komin á kreik. Mér finnst afar mikilvægt að við fáum að vita hvað stendur til í þessu efni.