145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:36]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti valdi orð sín af kostgæfni þegar hann sagði „fulltrúum flokkanna“ og það gerði forseti vegna þess að hann taldi eðlilegt að þingflokkarnir tækju ákvörðun um það hver mætti fyrir þeirra hönd á fund með hæstv. fjármálaráðherra. Forseti sér til að mynda ekkert að því, nema síður sé, þó að formaður VG sem um stundarsakir er utan þings sitji slíkan fund. Að mati forseta er það algjörlega á valdi þingflokkanna að taka ákvörðun um þetta. Forseti vildi einmitt með orðalagi sínu sneiða hjá því að hægt væri að segja að hann væri með einhverjum hætti að útiloka einn eða skipa öðrum fyrir og hagaði orðavali sínu með þessu af sinni alkunnu lýðræðisást.