145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna upp með viðbrögð við orðum hv. þm. Jóns Gunnarssonar þegar hann talaði um það að menn ættu að fara að semja eitthvað um hversu langa menn ætluðu að hafa þessa umræðu. Ég vil bara segja fyrir sjálfan mig að ég sé enga ástæðu til þess á þessum tímapunkti, ef ég á að segja alveg eins og er, vegna þess að umræðan er enn þá á því stigi að fólk var í gær í sínum fyrstu ræðum og er enn að ræða þetta mál mjög ítarlega, efnislega og af skynsemi að mínu mati.

Í gær kom fram frumvarp um Seðlabankann og svo kemur breytingartillaga núna. Þetta er lifandi plagg eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur réttilega bent á og þá er alveg eðlilegt að við tökum einn og hálfan tíma þegar svo ber undir til að kynna okkur málin áður en við tölum við hæstv. fjármálaráðherra. Það er ekki eðlilegt að umræðan hér, sér í lagi frá stjórnarmeirihlutanum, snúist um það eitt að ætla að glíma við klukkuna. Þetta er umræða sem við eigum að taka og við eigum að bera nógu mikla virðingu fyrir henni til að geta séð af einum og hálfum klukkutíma frekar en að stressast yfir því að fara heim fyrr.