145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:41]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar til að gera athugasemd við það hvernig boðað var til þessa fundar. Það var ekki haft neitt samráð við okkur í þingflokki Pírata. Ég var hér allt kvöldið og þurfti að hlaupa á milli manna í minni hlutanum til að reyna að fá einhverjar upplýsingar um hvort, hvernig eða hvenær þingfundir yrðu hér í morgun. Ég veit að meðflokksfélagar mínir í þingflokki Pírata voru ekki meðvitaðir um að þingfundur yrði kl. 10 á laugardagsmorgni. Það var ekki sendur tölvupóstur og það var ekki notast við símkerfið til að senda þingmönnum SMS. (Gripið fram í.) Það var sendur tölvupóstur, já, þá fór það að minnsta kosti fram hjá mér. Einhver hluti af okkar þingflokki var ekki með það á hreinu að hér væri fundur kl. 10 á laugardagsmorgni.

Mig langar bara til að gera vinsamlega athugasemd við þetta. Þegar verið er að breyta dagskrá þingsins svona gífurlega ætti að huga að því að haft sé samráð við alla flokka.