145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það er rétt, það var gert ráð fyrir milljarði í barnabætur sem mótvægisaðgerð og 400 milljónum í húsnæðisbætur og hugmyndin var í báðum tilfellum sú að mæta þeim sem voru með allra lægstu launin. En 400 milljónirnar hafa ekki gengið út þannig að leigjendur sem ekkert fengu út úr skuldaniðurfellingunni hafa verið sviknir um þá viðbót einhverra hluta vegna. Við í fjárlaganefnd höfum spurt hvernig standi á því og höfum bara fengið þau svör að ekki sé búið að ganga frá því máli. Við spurðum auðvitað út í barnabæturnar og við höfum spurt hvernig stæði á því að viðmiðin þá — Alþingi samþykkti upphæð sem allir voru í góðri trú um að gengi til barnafjölskyldna í landinu til að jafna stöðuna og menn sjá strax eftir fyrstu þrjá mánuðina hvort upphæðin gengur upp eða ekki. Þannig er það. Það hefði verið leikur einn í vor að breyta viðmiðunum til að tryggja að sú upphæð sem Alþingi hefur samþykkt að ætti að ganga til barnafjölskyldna gengi til þeirra en ekki aftur til baka í ríkissjóð. Þetta virðist vera meðvitað. Viðbrögðin sem við, sem höfum talað fyrir þessu og gagnrýnt að barnabæturnar og mótvægisaðgerðirnar rynnu aftur í ríkissjóð, höfum fengið eru að við ættum að vera svo glöð af því að kaupið í landinu væri að hækka. Það sýnir algjört skilningsleysi á stöðu fólks með lág laun.