145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna.

Í framhaldinu er þessi mikla tollalækkun fram undan sem á að taka gildi um áramótin. Launþegasamtök meðal annars hafa dregið í efa að hún verði í raun eins mikil og tónar ríkisstjórnarinnar gefa til kynna og í ljósi þess sem hér hefur verið rakið. Við höfum haft áhyggjur af því og lýst því hvað varðar einmitt eftirfylgnina og hvort það skilar sér allt saman. Það er auðvitað svolítið flókið að eingöngu við sem neytendur eigum að fylgjast með þessu í staðinn fyrir opinbert eftirlit. Ég hef líka einmitt áhyggjur af því að tollarnir skili sér ekki að öllu leyti.

Mig langar aðeins til fara út fyrir ræðu þingmannsins að þessu sinni, þ.e. þessa ræðu, og spyrja hana, af því að við höfum töluvert rætt um almenningssamgöngur, byggðamál og ýmislegt fleira, að virðisaukaskattur af almenningssamgöngum hefur ekki verið tekinn fyrir eða ræddur. Ég held að það sé rétt munað hjá mér að það eigi að ganga í gildi núna um áramótin að tekinn verður virðisaukaskattur af skólaakstri, tekinn verður virðisaukaskattur af akstri fatlaðs fólks o.s.frv. Sveitarfélögin hafa kallað aðeins eftir þessu og ég hef velt fyrir mér hvort sú breyting gæti komið til ásamt öllum öðrum sem hér eru undir, sem virðist vera milli 2. og 3. umr. því að hv. varaformaður fjárlaganefndar sagði á fundi okkar í gær að nóg yrði að ræða milli umræðna og það er nú að koma í ljós, hvert málið á fætur öðru. Það eru 3 milljarðar á tveimur sólarhringum sem við vitum af og kannski margt annað eftir. Ég spyr því hv. þingmann hvort hún telji að þetta sé eitthvað (Forseti hringir.) sem við þurfum að taka upp núna á milli umræðna og vita hvort ríkisstjórnin sé meðvituð um þessa íþyngjandi viðbót fyrir sveitarfélögin sem hafa kallað eftir því að fá auknar tekjur í gegnum virðisaukaskattinn.