145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:09]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst aðeins varðandi vörugjöld og tolla sem eiga auðvitað að skila sér beint til neytenda, þá lýsir það ekki mikilli neytendavernd eða mikilli áherslu á neytendavernd að ríkið skuli ekki sjálft kanna það og fylgjast með því hvort aðgerðir sem ætlaðar eru til að skila neytendum betri stöðu skili sér í raun til þeirra. Það er mjög gagnrýni vert að það sé bara sett í hendur markaðarins og svarið sé bara: Markaðurinn sér um sig. Og síðan verði neytendur að vera á tánum til að fylgjast með hvernig farið er með þessar niðurfellingar.

En varðandi vaskinn þá geri ég ráð fyrir að það verði rætt í efnahags- og viðskiptanefnd en einnig í fjárlaganefnd því að þetta varðar báðar nefndirnar. Þegar hv. þingmaður nefnir almenningssamgöngur og þær íþyngjandi aðgerðir sem eiga að leggjast á að mér skilst hluta almenningssamgangna, ekki allt saman, og það geti haft íþyngjandi áhrif fyrir sveitarfélögin þá vil ég líka nefna að breyta þarf lögum um almenningssamgöngur. Eins og þau eru núna er þetta afar slæmt fyrir sveitarfélögin sem hafa lagt mikla vinnu í að búa til kerfi almenningssamgangna um sitt landsvæði, en það virðist vera ætlun ríkisstjórnarinnar að hrifsa í öllum landshlutum út arðbærustu leiðirnar eins og gert hefur verið á Suðurnesjum með leiðinni á milli Leifsstöðvar og Reykjavíkur. Það var alla vega staðan þegar frumvarpið var lagt fram síðast og ég vona sannarlega að einhverjar breytingar verði á því en ég hef ekki heyrt af því.