145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:13]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins áfram með almenningssamgöngurnar. Mér finnst mikilvægt að fólk átti sig á því hvernig hlutirnir virka og ég horfi á mitt landsvæði, Suðurnes. Þar voru sveitarfélögin búin að leggja mjög mikla vinnu í það að búa til kerfi almenningssamgangna um allt svæðið sem hentaði sérstaklega vel unglingum og fólki sem ekki er með bílpróf eða bíla til að sækja alls konar þjónustu, skóla og frístundir á milli byggðarlaga. Kerfið var mjög fínt og ein leið var arðbær, það var leiðin á milli Keflavíkur og Reykjavíkur eða flugstöðvarinnar og Reykjavíkur.

Það sem þáverandi innanríkisráðherra gerði var að slíta samningunum og kippa þeirri leið út sem þýðir það að allar almenningssamgöngur eru með neikvæða stöðu og kostnaðurinn lendir beint á sveitarfélögunum sem ekki standa vel fyrir. (Forseti hringir.) Þetta gengur náttúrlega ekki þegar menn tala fjálglega um aðgerðir varðandi loftslagsdæmið allt saman og heimsmet og guð má vita hvað í því sambandi, þá á auðvitað að horfa á svona hluti.