145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þær upplýsingar sem hún var með um afdrif þessara svokölluðu mótvægisaðgerða vegna hækkunar matarskatts. Það er loksins að dragast upp fyrir mér, ef ég hef skilið þetta rétt og ég vil bera það undir hv. þingmann, að í raun og veru séu þessar mótvægisaðgerðir að engu orðnar. Það er lofað 1 milljarði inn í barnabætur en með því að ríkisstjórnin lætur ekki skerðingarmörkin fylgja launaþróun eru það í raun og veru barnafjölskyldurnar, tekjulágar barnafjölskyldur, sem borga hækkun matarskattsins sjálfar af því að þær missa þetta út í skertum barnabótum sem þær hefðu ella notið góðs af í hærri launum eins og allir aðrir landsmenn. Ef við það bætist svo að 400 milljónir sem áttu að fara í húsnæðisbætur eða stuðning til leigjenda hverfa líka eru að minnsta kosti á þessu ári hinar svokölluðu mótvægisaðgerðir nánast horfnar.

Úr því að Framsóknarflokkurinn er meðvitundarlaus í þessu máli eins og öðrum, að vísu er einn maður vakandi í salnum frá Framsókn plús forseti, vil ég beina því til fulltrúa okkar í fjárlaganefnd að fyrir 3. umr. taki þau saman yfirlit yfir það hvernig þessar mótvægisaðgerðir eru að engu orðnar Framsóknarflokknum til upplýsingar og skemmtunar úr því að Framsóknarflokkurinn hefur enga sinnu á þessu sjálfur.

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þingmann: Hvaða upplýsingar, ef einhverjar, hefur fjárlaganefnd fengið frá ríkisstjórn um það hvernig eigi að fara með svonefnd stöðugleikaframlög eða tekjur vegna afnáms gjaldeyrishafta? Það er risasvaxið verkefni, vissulega ekkert einfalt eða auðvelt mál að áætla og færa inn í fjáraukalög eða fjárlög, en nú er staðan væntanlega sú að að minnsta kosti eitt af búunum er búið að samþykkja og ég held fá samþykkt í héraðsdómi sitt nauðasamningafrumvarp með stöðugleikaframlögunum undir (Forseti hringir.) og kröfuhafar voru svo himnasælir að þeir samþykktu það nánast 100%. Þeir gætu þar af leiðandi jafnvel greitt það fyrir áramót og þá er spurningin: Hvernig á að fara með það?