145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hv. þm. Jón Gunnarsson hefur verið að fylgjast með þingræðunum sem hafa verið haldnar. Þær hafa verið haldnar fram yfir miðnætti marga daga í röð. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hlýtt á hverja einustu, en þær sem ég hef hlýtt á hafa verið efnislegar og málefnalegar, þær hafa ekki einkennst af neinu málþófi. Þetta eru fjárlög ríkisins sem koma seint fram. Það eru sífellt að koma inn breytingartillögur. Gott og vel, en þá þarf fólk að ræða þær, virðulegi forseti, þar á meðal hv. 12. þm. Suðvest., Birgitta Jónsdóttir, ekki einungis hv. 12. þm. Suðvest., Björn Leví Gunnarsson. Ég vísa því á bug sem hv. þm. Jón Gunnarsson segir um að hér sé málþóf til þess að koma mönnum að.

Það sem ég benti á var einfaldlega það að ef hv. þingmaður vill komast hér að þá kemst hún ekki að vegna þess að mönnum liggur á að klára þetta mál í dag í stað þess að gefa fólki tíma til þess að ræða það málefnalega og yfirvegað, eins og hefur verið, og kynna sér það sem (Forseti hringir.) er að gerast í þessu lifandi plaggi. Ég bendi bara (Forseti hringir.) hv. þingmanni á að þetta er mál sem þróast (Forseti hringir.) með tímanum eins og réttilega hefur verið bent á. Við eigum að taka tillit til þess. Hv. þingmaður ætti að sýna þessu þingi aðeins meiri virðingu þegar kemur að rétti manna til að tjá sig.