145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:37]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég spyr mig hver sé ástæða þess að forseti ákveður að túlka ákvæðið um varamennina svona þröngt. Í ákvæðinu segir beinlínis að þegar varamaður taki sæti í forföllum þingmanns skuli hann ekki sitja skemur en eina viku nema þingi hafi verið frestað eða þinghlé sé hafið samkvæmt starfsáætlun. (Gripið fram í.) Þarna má túlka út frá því að starfsáætlun er dottin úr gildi. Þingforseti hefði getað og getur túlkað þetta þingmönnunum í vil, en hann ákveður að gera það ekki. Í ofanálag er líka talað um í þessari grein að þingmaður njóti ekki þingfararkaups meðan varamaður hans sitji á þingi nema fjarvist sé vegna veikinda eða þingmaður sé fjarverandi í opinberum erindum í að minnsta kosti fimm þingdaga. Reglan um fimm þingdaga er sú sem við höfum unnið eftir hingað til. Mér þykir forseti ekki taka stöðu með þingmönnunum sínum, (Forseti hringir.) kjörnum fulltrúum hér, (Forseti hringir.) þegar hann úrskurðar með þeim (Forseti hringir.) hætti sem hann ákveður nú ef við horfum á þessa reglu.