145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Formaður fjárlaganefndar hefur talað um að fjárlagafrumvarpið sé lifandi plagg, en á öllu hljóta nú að vera einhver skynsamleg mörk. Þótt til sanns vegar megi færa að plaggið sé lifandi þá er kannski fulllangt gengið að það detti inn milljarðar á dag, dag eftir dag, án þess að það sé fullbúið og fram komið áður en umræðunni er haldið áfram. Svo hefur komið fram í máli hv. formanns fjárlaganefndar að það eru beinlínis villur í áliti (Gripið fram í.) meiri hluta fjárlaganefndar og það er ekki nóg með að þær villur komi fram í nefndarálitinu heldur hefur hv. þm. Vigdís Hauksdóttir brigslað mönnum hér um lygar úr ræðustól Alþingis, meira að segja hefur hún haldið þessu fram við stjórnarmenn Ríkisútvarpsins og kom það fram í blaðagrein í dag að hún hefði varpað allri ábyrgð á lækkun útvarpsgjaldsins á núverandi stjórnarandstöðu á fundi fjárlaganefndar. Þannig að það er allnokkur (Forseti hringir.) runa af afsökunarbeiðnum sem þarf að koma frá formanni fjárlaganefndar til viðbótar við annað uppnám sem hér er.