145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:03]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er svolítið skrýtið að vera í 2. umr. fjárlaga og það eru enn þá að koma upp mál þar sem ljóst er að gerð hafa verið mistök við vinnslu málsins þrátt fyrir að menn hafi fengið aukinn tíma til þess að vinna það. Ég velti því fyrir mér að á vönduðum vinnustöðum mundu menn líklega gera hlé á þessari umræðu og taka málið inn til nefndar og lúslesa það, fara í gegnum það og reyna að lagfæra allar villur áður en það kæmi til umræðu aftur þannig að menn væru að ræða málið á réttum forsendum og menn lentu ekki í vandræðalegum uppákomum eins og hv. formaður nefndarinnar og færu með rangar fullyrðingar.

Hv. þingmaður kallar fram í að verið sé að prenta upp nefndarálitið. Það er langt liðið á þessa umræðu. Ég held að það sé eðlilegra, svona upp á vandvirknina, umræðuna og til að allt geti gengið eðlilega fyrir sig í framhaldinu, að við gerum hlé, menn fari í gegnum nefndarálitið, (Forseti hringir.) fari í gegnum tölurnar og reyni svo að skila inn réttu máli.