145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það liggur við að ég taki það persónulega nærri mér þegar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir telur að verið sé að veitast að sér persónulega. Síður en svo. Eins og þingheimur veit þá hef ég alltaf haft hana í hávegum og hafi nokkur þingmaður barist fyrir því ötullega að hún yrði ráðherra þá er það ég. Því miður varð hvorki mér né hv. þingmanni að þeirri ósk minni. Við skulum nú ekki gefast upp í þeirri baráttu, en hugsanlega til þess að ávinna okkur stöðu í henni þá þurfum við að koma þessum fjárlögum frá með þokkalega sómasamlegum hætti. Það er kannski það sem vakir fyrst og fremst fyrir mér með því að koma hér upp. Ég tel að við verðum að láta persónulegar vangaveltur lönd og leið, við verðum að hugsa um sóma og sæmd þingsins. Hér hefur það gerst í fyrsta skipti að minnsta kosti síðustu 25 ár að það uppdagast hér dag eftir dag að stórir liðir hafa bókstaflega fallið út úr fjárlögunum, þeir hafa gleymst og svo deila þau um það í fjölmiðlum, forusta fjárlaganefndarinnar annars vegar og hins vegar fjármálaráðuneytið, hverjum er um að kenna.

Klárt er að það eru einir þrír liðir sem þarf að skoða betur. Svo heyrist enn (Forseti hringir.) að það séu að koma inn einhverjir liðir sem varða stöðugleikaframlög sem við sem sitjum undir lok 2. umr. höfum aldrei af heyrt. Er þá ekki rétt að menn fari heim og skoði þennan texta og ákveði nú í eitt skipti (Forseti hringir.) fyrir öll hvað í hann vantar? Svo skulum við koma saman og ræða það.