145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:13]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er dálítið merkilegt hvernig þessu landi virðist vera stjórnað af hópi fórnarlamba lýðræðislegrar umræðu, fólki sem ekki getur tekið því að það sé efnislega gagnrýnt fyrir það sem það segir eða gerir í krafti síns embættis. Ég veit ekki hvort það á að sinna þessum störfum ef það þolir það svona illa og tekur því svona persónulega.

Virðulegi forseti. Við erum komin í þá stöðu að ítrekað eru að koma fram nýjar upplýsingar, upplýsingar um að í þeim gögnum sem skilað var inn af meiri hluta nefndarinnar til grundvallar þeirri umræðu sem við stöndum í núna séu rangfærslur á ferð og þar séu ekki réttar upplýsingar. Það er verið að koma inn með nýjar tillögur. Það er verið að prenta upp nefndarálit meiri hlutans. Er þá ekki allt í lagi í nafni allrar vandvirkni að anda í kviðinn, stoppa þessa umræðu og fara yfir málið? (Forseti hringir.) Það þarf ekkert að taka langan tíma, bara til að við séum öll með það á hreinu hvað við erum að tala um.