145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:21]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. 2. umr. um fjárlagafrumvarp hefst þegar fjárlaganefnd hverju sinni hefur lokið umfjöllun sinni um fjárlagafrumvarpið sem hefur verið til 1. umr. í þinginu. Á grundvelli þeirrar vinnu sem fjárlaganefnd hefur unnið í millitíðinni ræðst umræðan hér. Þannig er ferlið í grófum dráttum.

Til að gera þetta betur úr garði en hefur verið árum og áratugum saman breytti þingið þingskapalögum, m.a. til þess að fjárlagafrumvarp kæmi fyrr fram en venjulega, til að 1. umr. færi skipulega fram hjá ráðherrum málaflokka og menn fengju það út úr henni sem þeir ætluðu sér. Allt hefur þetta gengið eftir en það er fjárlaganefnd sem bregst. Fjárlaganefnd bregst hvað þetta varðar vegna þess að hún fékk fjárlagafrumvarpið snemma til sín, hún skilaði því of seint og hún skilaði (Forseti hringir.) því illa, svo illa að núna er því lýst yfir að það sé verið að prenta nýtt nefndarálit af hálfu fjárlaganefndar, álit sem þessi umræða á að grundvallast á. Hvernig er annað hægt, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, en að fresta þessari umræðu þannig að við fáum nefndarálitið rétt, að því er talið er til umræðu og (Forseti hringir.) getum haldið því hérna áfram? Allt annað er tóm vitleysa.