145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er mjög hughreystandi í sjálfu sér að heyra formann fjárlaganefndar upplýsa að hún sé talsmaður vandaðra vinnubragða. Það er nákvæmlega það sem við erum að fara fram á. Þegar það liggur orðið fyrir að daglega rignir inn milljörðum sem hafa gleymst eða uppgötvast eða verið samið um úti í bæ, þegar formaður fjárlaganefndar tilkynnir að það þurfi að prenta upp nefndarálitið vegna staðreyndavitleysu sem þar er á ferðinni og þar fram eftir götunum er auðvitað komin upp sú staða að það er ekkert annað að gera en að fresta umræðunni, taka málið inn í nefnd, skýra það sem út af stendur, skila því inn aftur, breytingartillögum sem því fylgja og framhaldsnefndaráliti við 2. umr. Sú umræða er meginumræðan um efnismál frumvarpa.

Það var boðað sérstaklega að þessu sinni að fjárlaganefnd hefði lokið störfum og ekkert væri geymt til 3. umr. Þá á að standa við það enda eru það hin eðlilegu vinnubrögð. Best er ef ekki þarf að breyta neinu milli 2. og 3. umr. Það er til öryggis, (Forseti hringir.) til að hægt sé að fara yfir málið aftur, enda er þá bara ein umræða eftir og verður engu við bjargað ef mönnum yfirsést eitthvað í þeim efnum. Það er bara fullkomlega málefnaleg krafa, virðulegi forseti, að sómasamlega verði staðið að þessari vinnu.