145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:28]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem bara upp til að taka undir með þeim sem telja að fresta eigi þessari umræðu þangað til allt liggur klárt fyrir. Ég velti einu fyrir mér, ég skil ekki hvað hæstv. forseti telur að við fáum út úr svona fundi sem fer nánast eingöngu í þennan lið, fundarstjórn forseta, þar sem allt virðist vera í upplausn, því miður. Ég er ekki að saka einn eða neinn um óvönduð vinnubrögð eða annað, en það er alveg ljóst að eitthvað má betur fara og ég get ekki skilið hvers vegna ekki má kalla saman fund hjá fjárlaganefnd á mánudagsmorgun, ganga frá málinu og klára svo umræðuna á mánudaginn. Það væri langbest og ekki yrði það síst til að sýna þjóðinni að við erum að reyna að gera þetta vel. Við ættum að leyfa henni aðeins að hvíla sig á alþingismönnum yfir helgina og kæla okkur niður. Ekki hefur þetta verið það gæfuleg vika fyrir alþingismenn, Alþingi eða ríkisstjórnina. Ég held að það væri mjög mikill bragur á því ef forseti Alþingis léti gott heita í dag og við mundum mæta aftur á mánudaginn.