145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fjárlagafrumvarp var lagt fram snemma en því var skilað seint úr nefnd. Það getur gerst. Á seinustu dögum eru komnar tvær breytingar upp á milljarða. Það getur gerst. Það þarf að prenta upp nefndarálit meiri hlutans. Það getur gerst. Að sögn hv. 2. þm. Reykv. s. þyrfti einnig að prenta upp nefndarálit minni hlutans. Og það getur gerst.

Þingfundur hefur verið stanslaus mjög lengi og staðið dögum saman fram yfir miðnætti, seinustu fjóra daga. Hugmyndin með 2. umr. hlýtur að vera sú að við ræðum það sem fer fram í fjárlaganefnd og þau gögn sem koma úr þeirri vinnu. Hér er staðan hins vegar þannig að nefndarvinnan fer fram í reynd samhliða þingfundi. Ef það er ætlun okkar að fylgjast með þingfundi og fylgjast með því sem er að gerast í nefnd, til hliðar að því er virðist, getum við illa haldið utan um þetta, sér í lagi þegar laugardagur er síðan notaður til þingfundar og við vitum ekki heldur hversu langur hann verður.

Ég velti stundum fyrir mér hvenær maður eigi nákvæmlega að fara yfir gögn á þessu þingi (Forseti hringir.) vegna þess að mörg okkar nota helgarnar, laugardaga sérstaklega, til að fara yfir gögn vegna þess að annars gefst ekki tími, m.a. þegar það er stanslaus þingfundur. Skoðum gögnin yfir helgina og ræðum þetta mál aftur á mánudaginn.