145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:31]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég verð að taka undir með hv. síðasta ræðumanni, það er akkúrat þetta sem er að gerast. Það hefði ekki bara verið nauðsynlegt að þingmenn væru að lesa heldur hefðum við þurft að fá upplýsingar fyrir fund á mánudaginn. Nú vitum við ekkert. Er nefndatafla í gildi? (HHG: Hvað kemur næst?) Hvað kemur næst? Verður hefðbundið nefndastarf í næstu viku? Það væri æskilegt að fá að vita hjá hæstv. forseta hvort svo verður.

Dagskráin er fallin úr gildi. Það gerðist í gær. Þann hringlandahátt sem við erum því miður farin að þekkja of vel á þessum árstíma þarf að leysa. Ef við ætlum að fara inn í 3. umr. vel nestuð og vel undirbúin þurfum við tíma. Til að við eigum vandaða umræðu í þingsal er ekki best að við stöndum hér með allt of litlar upplýsingar, eiginlega kannski engar upplýsingar nema bara tölur, ekkert hvernig eða hvar þær lenda og hver afgangur ríkissjóðs verður. Það (Forseti hringir.) er ekki hægt að bjóða fólki upp á þetta. Ég vona svo sannarlega að hæstv. forseti sjái til þess að þessum þingfundi ljúki brátt (Forseti hringir.) þannig að hægt sé að fara að sjá framhaldið og hvernig við komum inn í umræðuna eftir helgi.