145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:23]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að þingmenn stjórnarliðsins, sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kallaði eftir að mundu svara fyrir fjárlagafrumvarp sitt, geri það ekki við ræðu hv. þingmanns. Ég hefði sannarlega viljað heyra það sem þingmaðurinn kallaði eftir.

Mig langar aðeins að koma inn á heilbrigðismálin og heyra sýn hv. þingmanns á þeim. Nú heyrum við stjórnarliðana berja sér á brjóst og tala eins og fólk sé hreykið af því hvað fari mikið í heilbrigðismál. Samt segja forsvarsmenn að ég held allra heilbrigðisstofnana í landinu að það renni ekki nægt fé í þennan málaflokk. Helst er það Landspítalinn sem við sjáum að ár frá ári og öll árin frá því að þessi ríkisstjórn tók við, þ.e. síðan hagurinn fór að vænkast hjá okkur í landinu, er ekki gert nægjanlega vel við spítalann. Peningarnir eru settir í annað. Það voru settir 80 milljarðar í skuldaniðurfellingu. Skuldaniðurfellingin kom auðvitað aðallega fram 2013, en í þessum fjárlögum fara 15,5 milljarðar í þann lið á meðan heilbrigðiskerfið sveltur.

Mig langar að spyrja þingmanninn út í þessa forgangsröðun, hvort hann sé sammála mér um að hún sé slök og hvað hann segi um það að 90% þjóðarinnar (Forseti hringir.) hafi lýst því yfir í skoðanakönnunum að þeir vilji helst bæta heilbrigðiskerfið í þessum fjárlögum.