145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:27]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir þessu líka. Ég hef tekið eftir því að hv. þingmenn í stjórnarliðinu tala sem betur fer vel um það og virðast allir af vilja gerðir að reisa Landspítalann upp úr öskustónni. Svo er eins og það sé engin tenging inn á ríkisstjórnarborðið. Ég velti fyrir mér hvort þingmenn átti sig ekki alveg á því að þeir eru lýðræðislega kjörnir eins og ráðherrarnir og þeir eiga að hafa valdið. Ég hvet þá áfram að hvetja sitt fólk til að lúta vilja þjóðarinnar.

Við erum sammála um það og við sjáum það öll að það er til nóg af peningum. Ég skil hreinlega ekki þá pólitík þegar 90% þjóðarinnar vilja eitthvað ákveðið og það „meikar sens“, fyrirgefðu, hæstv. forseti, — er þá ekki bara frábært að gera nákvæmlega það út af því að þá verða menn væntanlega kosnir í næstu kosningum? Er það ekki miðinn inn í næstu ríkisstjórn ef þessir ágætu ráðherrar ákveða að setja 100 milljarða, eða 60 eða 80 eða hvað það er sem þarf, í að byggja nýjan Landspítala? Ég næ bara ekki af hverju fólk gerir það ekki.