145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að fyrri partur andsvars hv. þingmanns hafi haft það að markmiði að peppa hv. þm. Willum Þór Þórsson upp og hvetja hann til dáða. Honum til varnar vil ég segja að það er dálítið erfitt fyrir óbreytta þingmenn að ætla að nudda í svona málum gagnvart ráðherrum sem sýna málinu lítinn skilning, enn síður gagnvart formanni fjárlaganefndar sem hefur tekið sér mikið vald og lítur bókstaflega á forustumenn heilbrigðismála sem persónulega óvini, eins og forstjóra Landspítalans. Hún hefur opinberlega sagt að hún líti svo á að hann beiti hana andlegu ofbeldi. Þetta er staða sem þingið þarf að leysa með einhverjum hætti. Það er kannski óleysanlegt verkefni við þessar sérstöku aðstæður að ætla að reyna að ná upp rökrænu samtali á milli þingsins og fjárlagavaldsins annars vegar og hins vegar forsvarsmanna þessarar merku heilbrigðisstofnunar.

Það er ein meinvilla sem mér finnst vera í hugsun stjórnarmeirihlutans. Hún er þessi: Við ákváðum að í ár ætluðum við að setja þetta mikið í þjóðarspítalann og þá á það bara að duga. Menn horfa fram hjá því að þjóðin breytist með tvennum hætti, henni fjölgar og hún eldist. Álagið á spítalann verður meira. Svo gerist annað, sem er eins og menn horfi algjörlega fram hjá líka, ferðamannastraumurinn hingað er ígildi nýs byggðarlags upp á 50–60 þús. manns og er meira og minna hnappaður í kringum þjóðarspítalann. Á honum mæðir þegar eitthvað verður. Nú veit ég ekki hversu mikið álag er vegna þessa, en ég sé það til dæmis að þetta nýja þorp aðvífandi túrista hefur gjörbreytt högum atvinnugreinar mjólkuriðnaðarins, (Forseti hringir.) hefur sogið upp hvern dropa af mjólk sem hefur verið búinn til. Það hefur áhrif þar. (Forseti hringir.) Ég ímynda mér að það hafi líka áhrif á þarfirnar og kröfurnar gagnvart spítalanum. Þá þurfum við að koma til móts við þessar þrjár nýju breytur.