145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hv. formaður fjárlaganefndar hefur haft þá málsvörn uppi í þeim sviptingum sem hafa verið í kringum fjárlagafrumvarpið undir umræðunni að það sé lifandi plagg. Það má til sanns vegar færa. Það hefur sannarlega verið áhugavert að fylgjast með sviptingunum undanfarna sólarhringa sem hafa bein áhrif inn í væntanleg fjárlög næsta árs. Ég verð náttúrlega fyrst að segja að vinnubrögðin sem þetta hefur í raun afhjúpað eru ekki góð. Frumvarpið kom alveg óvenjusnemma fram vegna þess að annar þriðjudagur í september í ár var eins snemma og hann getur verið. Ætli frumvarpinu hafi þar af leiðandi ekki verið dreift strax 8. eða 9. september? Engu að síður þurfti meiri hluti fjárlaganefndar hálfan mánuð umfram starfsáætlun til að koma málinu frá sér til 2. umr. þannig að hún var sprungin um hálfan mánuð áður en við byrjuðum á þessari umræðu. Síðan kemur stórskrýtið nefndarálit frá meiri hluta fjárlaganefndar, beinlínis stórskrýtið, og er ég þá ekki að tala um hluti eins og lögskýringu með fjárveitingum til að hanna nýbyggingu Alþingis um að þar eigi að styðjast við hátt í 100 ára gamla skissu Guðjóns Samúelssonar af heimavist út við Tjörnina á allt öðrum stað á lóðinni. Þegar Alþingi fer að byggja nútímaskrifstofuhúsnæði fyrir sig á öndverðri 21. öld — nei, þá á að nota 100 ára gamla skissu af heimavist, segir forsætisráðherra og boðberar hans í fjárlaganefnd hafa komið því þangað.

Það eru auðvitað ýmsar fullyrðingar í nefndarálitinu út í loftið. Þar var beinlínis rangt farið með hluti sem varða Ríkisútvarpið og það ásamt fleiru hefur leitt til þess að formaður fjárlaganefndar hefur nú upplýst að nefndarálitið verði kallað aftur og prentað upp.

Öllu alvarlegra er þó að á síðustu sólarhringum hafa komið fram hlutir sem eru eiginlega alveg dæmalausir eins og það að það gleymdist einfaldlega að gera ráð fyrir næstum 1,2 milljarða kr. útgjöldum vegna kjarasamninga við kennara í landinu, bara gleymdist, og hér kemur vandræðaleg breytingartillaga frá formanni fjárlaganefndar með alllangri greinargerð sem er eiginlega enn eitt nefndarálitið þar sem reynt er að útlista þetta.

Í gær skrifaði hæstv. fjármálaráðherra ásamt fleiri ráðherrum undir samkomulag við sveitarfélögin um fjármögnun málaflokks fatlaðra sem sveitarfélögin tóku yfir á sínum tíma, sem er gott, jákvætt og mikilvægt og varð að taka á. Það var augljóst mál að sveitarfélögin voru í þann veginn að skila málaflokknum til ríkisins nema þau fengju úrlausn þar, en það eru eftir sem áður útgjöld sem sveitarfélögin segja að séu upp á 1,5 milljarða kr. sem bætast inn í málaflokkinn og það er á kostnað tekna ríkisins. Það gerist annars vegar með því að hækkun á útsvarinu upp á 0,04% er lögfest til frambúðar þannig að meira af tekjuskattsstofninum gengur til sveitarfélaganna í formi útsvars, minna til ríkisins. Og að hinu leytinu verður skiptaprósentan á almennum skatttekjum ríkisins sem ganga til jöfnunarsjóðs, sem hefur verið um árabil 2,12%, núna færð upp í 2,355%. Þetta er veruleg breyting því að þarna er um að ræða 0,235 prósentustiga hækkun á öllum skattstofnum ríkisins sem ganga þar með til jöfnunarsjóðs en ekki til ríkisins. Hvað tekjutapið er nákvæmlega hef ég ekki náð að reikna út, en það er örugglega í nágrenni við milljarð bara út af þessum lið.

Þetta eru umtalsverðar breytingar. Með afgangi á heildarjöfnuði upp á rétt liðlega 10 milljarða eins og hann stefndi í með breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar sem tók afganginn niður um næstum 5 milljarða er heildarjöfnuðurinn auðvitað á hraðri leið niður í núllið. Ég ætla bara að vona að ekki líði nokkrir sólarhringar í viðbót þar sem menn uppgötva einn til einn og hálfan milljarð á dag og þetta verði farið í núll á örfáum sólarhringum. Það er veruleikinn, því miður. Það á að fara að loka fjárlögunum með sáralitlum afgangi, langt innan skekkjumarka eins og það má kalla þegar hann er farinn að mælast í fáeinum milljörðum króna.

Langtímahorfur ríkisfjármálanna miðað við óbreyttar áherslur hvað varðar pólitíska fötlun þegar kemur að því að afla ríkinu tekna — það er ekki hægt að kalla það annað en pólitíska fötlun, það er eins og Sjálfstæðisflokknum sé fyrirmunað að huga nokkurn tímann að tekjuöflunarhliðinni. Það er bara eitt í forritinu hjá þeim, það er að lækka skatta óháð aðstæðum, óháð þörf, óháð hagsveiflunni, óháð því hversu óskynsamleg sú áhersla er. En það er margt sem bendir til þess að róðurinn verði þyngri hjá ríkinu á næstu árum en maður hafði bundið vonir við. Þá nefni ég til dæmis fjárfestingarstigið sem okkur er væntanlega öllum ljóst að ekki verður keyrt í mörg ár inn í framtíðina með jafn lágu fjárfestingarstigi og ríkið er núna keyrt á, losar kannski 1% af vergri landsframleiðslu. Langtímameðaltalið er yfir 2%. Það er tvöfalt það sem við erum að ráðstafa í nýfjárfestingar á vegum ríkisins í dag. Ef við tökum fjárfestingar og viðhald bæði ríkis og sveitarfélaga þá skríður það kannski yfir 2% af vergri landsframleiðslu en ætti að vera 3,5% ef við lítum til langtímameðaltals.

Hins vegar eru það framtíðarforsendurnar eins og þær eru teiknaðar upp í þessu litla hefti sem fylgir frumvarpi til fjárlaga og ég hef reynt að draga athyglina að en haft takmarkaðan árangur í þeim efnum. Ég er mest hissa á því að pólitísk umræða á Íslandi skuli ekki hverfast meira um þá framtíðarsýn sem hægri menn draga upp í fylgiriti sínu með fjárlögum, og að til dæmis aðilar eins og verkalýðshreyfingin skuli ekki hafa litið í þetta plagg og spurt ríkisstjórnina: Bíddu, er það þangað sem þið ætlið með okkur? Því að hvert er verið að fara með okkur? Jú, samkvæmt þessu hefti, t.d. á bls. 45, á að stefna afkomu ríkissjóðs þannig fram til og með árinu 2019 að gjöldin, útgjöld ríkisins án óreglulegra liða fari niður í um 25% af vergri landsframleiðslu. Í staðinn fyrir hvað? Ja, 28–30% a.m.k. að langtímameðaltali.

Ef við lítum á þetta út frá öðrum mælikvarða á bls. 92 þá er það sagt skýrt, og það er heiðarlegt, að frumgjöld ríkisins án óreglulegra liða eigi að lækka jafnt og þétt fram til og með árinu 2019. Upphaflega áttu þau að lækka um 1 prósentustig af vergri landsframleiðslu á tímabilinu, en það hefur mönnum greinilega ekki þótt nóg frá vorinu, þannig að nú er búið að auka í og frumgjöld án óreglulegra liða eiga að lækka um 1,2% af vergri landsframleiðslu fram til 2019. Það þýðir að þau verða komin niður í um 23% af vergri landsframleiðslu, í staðinn fyrir að þau voru 28% á tímabilum í fortíðinni eins og 2009, 2003 og sennilega að meðaltali síðustu tíu árin um 26,5%. Það hljómar kannski ekki eins og óskaplegur munur að frumgjöld ríkisins án óreglulegra liða fari úr 26,5% niður í 23%. En vita menn hvaða tölur eru þarna á bak við? Jú, ef við tökum núverandi fjárhæðir landsframleiðslunnar upp á u.þ.b. 2.200 milljarða þá eru þetta 75–80 milljarðar kr. sem á að minnka útgjöld ríkisins um og það sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Það á að minnka samneysluna, minnka velferðarkerfið á Íslandi, minnka það sem ríkið getur lagt í að veita þjónustu eða byggja upp innviði um þessar svakalegu fjárhæðir. Þetta er framtíðarsýn hægri manna. Framsóknarflokkurinn sefur auðvitað með þeim værum svefni og hefur enga meðvitund í þessu frekar en öðru enda löngu liðin tíð að maður gæti gert sér vonir um að sá flokkur reisti einhverja félagslega rönd við í hjónabandi með íhaldinu.

Þetta er ekki björt framtíðarsýn þegar við lítum til þarfarinnar á að fjárfesta í innviðunum í heilbrigðiskerfinu, vegakerfinu, sem við erum að svelta og í raun og veru henda þar með láni inn í framtíðina, til að takast á við breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar og takast á við lífeyrisskuldbindingarnar sem, eins og ég fór yfir í andsvari áðan, stefnir í að þurfi að gjaldfæra upp á 145–155 milljarða kr. í viðbót. Það mun nú taka dálítið í, enda segir meiri hluti fjárlaganefndar í nefndaráliti sínu að þá yrði um langumfangsmestu gjaldfærslu í ríkisreikninga að ræða nokkru sinni. Það verður gæfulegur ríkisreikningur. Kannski koma þar inn á móti einhver stöðugleikaframlög, en breytir ekki því að þetta er (Forseti hringir.) ávísun á það að staðan er sennilega þrengri og verður þrengri næstu árin en maður hafði vonað, er ég þá ekki einu sinni farinn að tala um það tekjutap sem ríkið mun búa (Forseti hringir.) við og draga með sér inn í framtíðina vegna þess hvernig ríkisstjórnin hefur hagað tekjuöflun.