145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:42]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ræðu þingmannsins. Mig langar fyrst að spyrja um þær 75 milljónir sem margir hafa algjörlega gapað yfir sem eru skilyrtar út frá einhverjum ákveðnum húsbyggingarstíl í skrifstofuhúsnæði við Alþingi. Ég spyr vegna reynslu þingmannsins hér hvort það sé algengt að fjárlagaliðir í fjárlagafrumvarpi séu skilyrtir út frá einhverju fagurfræðilegu mati einstakra ráðherra eins og hæstv. forsætisráðherra í þessu tilfelli. Ef þetta verður ekki samþykkt, verður þá engin bygging byggð hér? Ég næ því ekki hvernig skilyrða má fjárlagaliði við eitthvað tiltekið, eins og í þessu máli tiltekna teikningu sem er margra ára gömul.

Aðeins að fjárútlátum til Landspítala. Ég er mjög hugsi yfir því hvernig Landspítalinn á enn eina ferðina að geta rekið sig og sinnt sínum lögbundnu skyldum við borgara þessa lands þegar upp á vantar 3 milljarða kr. Ég næ því ekki hvernig fólk fær það út að það geti gengið upp, enda höfum við séð að það gengur ekki upp. Þótt ég viti að hv. þingmaður sé ekki sammála því kerfi sem er að fara að koma í gegn í heilsugæslunni, þar er samningurinn sá að það á að borga fyrir hvern sjúkling alveg klárt og kvitt og ef það koma fleiri sjúklingar en samningurinn gerir ráð fyrir þá bætir ríkið það upp, þá langar mig (Forseti hringir.) að spyrja: Þyrfti ekki að hugsa fjárútlát til Landspítalans á nákvæmlega sama hátt? Af hverju gerum við þetta fyrir einkaaðila en ekki fyrir okkar rekstur?