145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég lagðist svolítið yfir þetta við 1. umr. um frumvarpið. Nú þyrfti ég aðeins að rifja það upp, en ég skoðaði þá þessi hlutföll og mér brá mjög í brún þegar ég sá hversu lágt fjárfestingarstigið er hjá ríkinu, nýfjárfestingarnar eins og ég segi einhvers staðar losa kannski 1% af vergri landsframleiðslu og eiga ekki að aukast fram til 2019. Nú er staðan sú að við erum með enga samgönguáætlun, ríkisstjórnin ræður ekki við það verkefni. Ég held að menn þori ekki að sýna þá hörmulegu mynd í útfærslu í samgönguáætlun sem fjárlagafrumvarpið og fjárlög þessa árs eru ávísun á. En það eru aðrir hlutir líka sem er ástæða til að hafa áhyggjur af. Þá nefni ég það að markaðar tekjur til vegamála hafa ekki fylgt verðlagi. Það hefur myndast slaki í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þannig að það sem ætti annars að vera að auka tekjurnar nokkuð myndarlega, þ.e. aukin umferð, skilar minna en ella væri vegna þess að það er slaki í því að færa mörkuðu tekjurnar, láta þær fylgja verðlagi.

Að síðustu hefur það gerst sem er nýmæli að nú eru skuldfærð hjá Vegagerðinni og færð sem neikvætt eigið fé Vegagerðarinnar öll framlög úr ríkissjóði á umliðnum árum umfram markaðar tekjur. Þannig að Vegagerðin er talin vera í 17–18 milljarða skuld við ríkið. Það hlýtur að vera ávísun á að menn hugsi þannig að hún eigi að borga niður þá skuld, mjatla hana niður með sínum mörkuðu tekjum. Þá verður enn minna til að fjárfesta í sveltu vegakerfi sem er að grotna niður. Það mun baka okkur mikið tjón og gera útgjaldaþörfina meiri vegna þess að þegar vegir fara niður fyrir visst stig, ef viðhaldi þeirra er ekki sinnt, þá brotna þeir niður, burðarlagið hverfur úr vegunum og þá verður endurbygging þeirra dýrari en ella þyrfti að vera. Þetta vita allir sem eitthvað hafa fylgst með þessum málum. Þannig að árin sem nú eru að líða og næstu ár með sama áframhaldi eru ávísun á (Forseti hringir.) gríðarlegt tjón í vegakerfinu sem einhvern tímann verður að bæta og borga upp.