145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Við ræðum enn frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016. Það er eins og títt er með fjárlagaumræðu, þar er allt undir, öll stóru málin, enda er þetta hið stóra og mikilvæga stefnuplagg hverrar ríkisstjórnar í raun. Þarna endurspeglast pólitísk forgangsröðun og þær áherslur sem ríkisstjórn hvers tíma vill vera þekkt fyrir.

Mig langar í fyrsta lagi að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sleppti orðinu áðan í andsvörum sínum við Katrínu Júlíusdóttur þegar þau ræddu vegamál. Við höfum ítrekað gert við það athugasemdir að teknar séu stórar ákvarðanir sem varða stefnumörkun í málaflokkum í gegnum ákvarðanir á fjárlögum. Hæstv. ríkisstjórn hefur skilað auðu í tveimur stórum lykilmálaflokkum í íslensku samfélagi, málaflokkum þar sem sárlega skortir stefnumörkun og traust utanumhald, málaflokkum sem þurfa samráð við sveitarfélögin, við landsbyggðina, við alla stjórnmálaflokka, málaflokkum sem mæðir mjög mikið á sem eru annars vegar samgöngumál og hins vegar málefni ferðaþjónustunnar.

Ríkisstjórn Íslands skilar undir forustu innanríkisráðherra annars vegar og hins vegar viðskiptaráðherra ríkisstjórnarinnar og ferðamálaráðherra algjörlega auðu að því er varðar samgöngumál og ferðamál. Í þessum tveimur málaflokkum er engin stefnumörkun, engin framtíðarsýn og fjármagni er slett tilviljanakennt í málaflokkana. Við ræddum á dögunum framlag í gegnum fjáraukalög til þessara tveggja málaflokka, inn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða en einnig til tiltekinna vegaframkvæmda, þar sem fyrir lá meðan fjárlagavinnan fyrir yfirstandandi ár var í gangi að það þyrfti að styðja og styrkja þessa málaflokka með sérstöku framlagi á árinu. Það hefði átt að gera í fjárlögum. Þetta var fyrirséð en þó kemur þetta fyrst til sögunnar í fjáraukalagafrumvarpi eftir að ráðherrar málaflokkanna hafa lyft sér á kreik á blaðamannafundum og í myndatökum á miðju ári með fréttum um að þetta stæði til.

Í því umhverfi þar sem við erum ekki með neina samgönguáætlun sem ráðherranum ber þó að leggja fram að fenginni tillögu samgönguráðs, og sú sem hér stendur á sæti í hv. umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, hefur nefndin ekki á þessu þingi fjallað með nokkru móti um samgöngumál. Samgöngumál hafa ekki verið rædd á 145. þingi. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur nú fram sérstakan kafla um samgöngumál. Sá kafli hefur ekki fengið neina umræðu í samgöngunefnd þingsins og heldur ekki í samgönguráði sem er hinn lögformlegi stefnumörkunarvettvangur fyrir forgangsröðun í samgöngumálum og fjármögnun og fjárframlögum til þess málaflokks, leiðin sem okkur ber að fara samkvæmt lögum. Í stað þess er hér furðulegur kafli þar sem talað er um að með batnandi stöðu ríkissjóðs aukist möguleikar til umbóta í samgöngukerfinu en fleiri leiða en beinna framlaga úr ríkissjóði verði að leita til viðbótar, segir þar, með leyfi forseta, og meiri hlutinn bendir á brýn samgönguverkefni. Svo koma einhver brýn samgönguverkefni sem eru örugglega öll verðug en þetta er í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Fjárlaganefnd telur að það eigi að fara í að tvöfalda Vesturlandsveg, Sundabraut — Sundabraut? — og breikkun Suðurlandsvegar. Svo telur meiri hluti fjárlaganefndar að þetta séu dæmi um verkefni sem mætti leita annarra leiða til að fjármagna og framkvæma og koma sem hraðast áfram.

Ég held að það væri ágætt fyrir fjárlaganefnd að fara aðeins yfir verkefni fjárlaganefndar. Það eru ekki bara einhver áhugamál forustu fjárlaganefndar. Nefndarálit meiri hlutans er ekki vettvangur til að skrifa um áhugamál sín. Það er orðið landlægt í ríkisstjórnarflokkunum að menn líti svo á að ef þeir senda frá sér einhvern texta, hvort sem eru tillögur eða nefndarálit, sé það vettvangur fyrir einhvers konar hugarflug um alls kyns áhugamál sem falla alls ekkert undir fjárlaganefnd, sérstaklega þegar lögformlegu ferli er ekki lokið, þegar viðkomandi fagnefnd hefur ekki fjallað um málaflokkinn á nokkurn hátt á yfirstandandi þingi og þegar ekki er verið að tala um málaflokkinn þannig að eðlilegt sé að fjárlaganefnd komi að honum.

Ég hef áður fjallað um kúnstugt orðalagið sem lýtur að framkvæmdum á Alþingisreit og sérstakri trúmennsku við 100 ára gamlar teikningar sem er líka í þeim áhugamálastíl sem sér víða stað í stjórnarathöfnum meiri hlutans.

Mig langar þó fyrst og fremst að dvelja við tvær blaðagreinar dagsins. Þær eru hvor með sínu sniði en birtast þó báðar sem innsendar greinar í Morgunblaðinu í dag. Önnur er eftir Björgu Evu Erlendsdóttur, stjórnarmann í Ríkisútvarpinu. Hún fer yfir þá stöðu sem blasir við núna og nefnir árvissa aðför að Ríkisútvarpinu, að það sé nokkuð sem við höfum þurft að horfa á þetta kjörtímabil. Það má sannarlega til sanns vegar færa. Við höfum horft á árvissa aðför að Ríkisútvarpinu en hún er óvenjuaumingjaleg að þessu sinni, segir Björg Eva Erlendsdóttir. Af hverju er hún óvenjuaumingjaleg? Vegna þess að hún er andlitslaus. Enginn vill gangast við aðförinni að þessu sinni. Yfirleitt hafa menn farið brattar í aðför ársins, ef svo má að orði komast. Skemmst er að minnast, gæti hafa verið í fyrra, þegar hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra beinlínis æpti á Egil Helgason úti á Austurvelli, þá var aldeilis andlit á aðförinni, og taldi að langlundargeð Framsóknar væri komið á endastöð og nú hefði Framsókn engan húmor fyrir Ríkisútvarpinu lengur, þetta væri bara búið. Nú eru engar persónur og engir leikendur en aðförin er sannarlega enn fyrir hendi og birtist í því að frumvarp Illuga Gunnarssonar um að fallið verði frá lækkun útvarpsgjaldsins situr fast — hvar? Í ríkisstjórn. Ráðherra málaflokksins sjálfs sem hefur fjallað um að þetta standi til, að falla frá lækkuninni, reynist ekki standa undir því að klára í gegnum ríkisstjórn mál sem heyra undir hann sjálfan þó að ríkisstjórn Íslands sé ekki í nokkrum skilningi fjölskipað stjórnvald og ráðherra menntamála sé ráðherra málaflokksins til enda. Hann á ekki málflutning sinn undir neinum öðrum ráðherrum í ríkisstjórn. Hann þiggur umboð sitt frá Alþingi til að sinna og bera ábyrgð á þessum málaflokki til enda. Hæstv. ráðherra Illugi Gunnarsson á að koma með þetta frumvarp til Alþingis. Ef hann fær það ekki afgreitt út úr ríkisstjórn, eins og kallað er, kemur hann bara með það hingað og leggur fram í eigin nafni. Það þarf ekkert að vera stjórnarfrumvarp. Hann leggur það fram í eigin nafni sem menntamálaráðherra og ráðherra málaflokksins. Það er þannig sem ráðherra með sjálfsvirðingu mundi gera, eftir að hafa sagt það sem hann hefur sagt, og ég hvet hann til þess. Ég veit að það er meiri hluti fyrir þessu máli á Alþingi. Við leggjum fram okkar tillögu ef þetta birtist ekki með öðrum hætti. Undir lok greinar Bjargar Evu Erlendsdóttur segir, með leyfi forseta:

„Ef óvildarmenn Ríkisútvarpsins ná að vega svo gróflega að því og úr launsátri, verður næsta verkefni stjórnenda þess að ráðast í stórfelldan niðurskurð, reka fjölda starfsfólks, eyðileggja dagskrá, bæði sjónvarps og útvarps og fleygja þeim þjónustusamningi til fjögurra ára sem unninn hefur verið í samkomulagi við menntamálaráðuneyti.“

Þessi samningur er í samræmi við lög. Það liggur algjörlega fyrir að þjónustusamninginn um hlutverk og verkefni Ríkisútvarpsins þarf að endurskoða ef ekki verður fallið frá lækkun útvarpsgjaldsins.

Hér í umræðunni hefur komið fram að nú stendur yfir uppprentun á nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar af þeim sökum að þar er farið með ósannindi þar sem því er haldið fram að fyrri ríkisstjórn hafi ákveðið að gjaldið næmi 16.400 kr. á hvern einstakling eða lögaðila. Þetta er beinlínis rangt. Formaður fjárlaganefndar hefur viðurkennt það hér í ræðustól og notar það orðfæri að þetta hafi verið missagt, eins og ekki hafi verið um að ræða beinlínis ásetning. Enn hefur hún ekki fengist til að biðjast afsökunar á því að hafa borið menn þeim sökum að þeir hafi farið með rangt mál þegar hún gerði það sjálf. Ég tel að það þurfi að gerast áður en þessari umræðu lýkur enda kemur fram í áður ívitnaðri grein að meiri hluti fjárlaganefndar hafi líka getið þess á fundi með stjórn Ríkisútvarpsins að þessi ákvörðun ætti rætur að rekja til vinstri stjórnarinnar ógurlegu á síðasta kjörtímabili eins og náttúrulega öll landsins ógæfa.

Mig langar síðan að nefna og ræða aðra blaðagrein í þessu sama blaði hér í morgun, blaðagrein sem biskup Íslands ritar, frú Agnes M. Sigurðardóttir. Sú grein er skrifuð í jólaanda á aðventunni og í henni felst liðsauki og stuðningur við öryrkja og aldraða og baráttu þeirra fyrir bættum kjörum þar sem biskupinn yfir Íslandi tekur undir áhyggjur þessa hóps með tilvísun í baráttuna fyrir mannsæmandi lífi, betra lífi, og baráttuna gegn fátækt í heiminum. Í greininni segir, með leyfi forseta:

„Í kjölfar kjarasamninga sem gerðir hafa verið, úrskurða gerðardóms og kjararáðs, eru tveir samfélagshópar efst í mínum huga, aldraðir og öryrkjar. Það er óásættanlegt að þau, sem hafa byggt upp það samfélag sem við búum í og þau sem ekki eiga þess kost að afla tekna vegna heilsubrests eða fötlunar, þurfi að hafa áhyggjur af lífsafkomu sinni. Við verðum sem samfélag að standa okkur betur í því að tryggja öllum þegnum þessa lands mannsæmandi lífskjör. Ríki og sveitarfélög verða að axla sína ábyrgð í þeim efnum og mega ekki varpa ábyrgðinni á hjálparsamtök.

Ef óréttlæti ríkir í samfélaginu þá ríkir ekki friður, þá er ófriður.“

Og síðar:

„Friður og réttlæti eru systkin, til að friður ríki þá þarf réttlætið að ná fram að ganga.“

Tilvitnun lýkur hér, virðulegi forseti, í orð biskupsins yfir Íslandi sem segir réttilega að réttlæti og friður séu systkin og að til að friður ríki þurfi réttlætið að ná fram að ganga. Hvað er það sem aldraðir og öryrkjar eru að óska eftir? Þeir óska eftir því að hækkun almannatrygginga verði afturvirk. Af hverju? Vegna þess að þannig er um aðrar hækkanir á vinnumarkaði á Íslandi, m.a.s. þær hækkanir sem hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar og hv. þingmenn hafa fengið. Við á Alþingi, við sem erum kjararáð öryrkja og aldraðra, höfum öll fengið hækkun afturvirkt. Það réttlæti eða aðkoma að mannsæmandi lífi er í höndum okkar einna. Öryrkjar og aldraðir hafa engan annan og enga leið til að skjóta máli sínu annað. Eina leið þessara hópa er að kalla á réttlætið og tala til þeirra sem skipa Alþingi Íslendinga. Þetta ákall um réttlæti er sem betur fer ekki bara ákall aldraðra og öryrkja heldur sífellt stærri hóps Íslendinga, fólks úti um allt samfélag. Af hverju er það? Það er vegna þess að það er óásættanlegt að við séum enn að horfast í augu við það á Íslandi, sem er 14. ríkasta þjóð í heimi, að fólk eigi ekki fyrir mat, nái ekki endum saman, sé í vandræðum með daglegt líf og lífsafkomu sína. Það er óásættanlegt með öllu og okkur ber að gæta að því að þessi hópur sé ekki skilinn einn eftir. Það er ósanngjarnt og það er óréttlátt að gera það.

Hver stjórnarþingmaðurinn á fætur öðrum hefur komið upp í ræðustól Alþingis með blað sem mér heyrist nokkuð samhljóða þar sem þingmennirnir lesa upp prósentur og milljarða. Fólk sem lifir á 180 þúsundum á mánuði lifir hins vegar ekki á prósentum eða milljörðum sem taldir eru upp sem framlag núverandi ríkisstjórnar til þessa málaflokks. Hér er um að ræða veruleika einstaklinga og fjölskyldna en ekki tölur sem snúast um hagstærðir, hópa, prósentur og annað slíkt.

Staðan í íslenskum stjórnmálum er orðin þannig að ríkisstjórn Íslands sem ætlaði að virkja samtakamátt þjóðarinnar, vinna gegn sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál, auka samvinnu og samheldni til framtíðar, eyða pólitískri óvissu sem hafði verið of áberandi þáttur í íslensku þjóðlífi á undanförnum árum, vinna að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar, ríkisstjórn Íslands sem lagði svo mikla áherslu á að samfélag væri samvinnuverkefni þar sem öll störf skipta máli og haldast í hendur hefur mistekist þetta ætlunarverk sitt. Hvert og eitt einasta af þeim markmiðum sem lúta að því að stuðla að einhug, samheldni, samvinnu, samtakamætti og eindrægni í þessu samfélagi hefur mistekist.

Þetta er ástæðan fyrir því að traust á ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur dvínað, að trúverðugleiki þessarar sömu ríkisstjórnar er á hröðu undanhaldi og að það er veruleg þörf á að leggja á það áherslu að til eru valkostir við stjórn samfélagsins. Það eru til valkostir við það að leiða samfélagið inn í meiri áherslur jöfnuðar og félagslegs réttlætis. Þær áherslur endurspegluðust í sameiginlegum breytingartillögum minni hlutans. Flokkar sem geta komið sér saman um breytingartillögur við fjárlagafrumvarp, sem geta sýnt að þeir geti stillt saman strengi um ríkisfjármálin, eru flokkar sem geta stýrt Íslandi.