145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:24]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið.

Það er náttúrlega dapurleg staðreynd í stjórnmálaumræðunni á Íslandi að þingmeirihlutinn, kannski fyrst og fremst það fólk sem fer fremst í flokki, skuli enn þá vera svo upptekinn af sínu hlutverki að vera andstaða við síðustu ríkisstjórn. Maður hafði svo sem skilning á því fyrstu missirin eða fyrstu mánuðina að þeim væri enn þá mjög ofarlega í sinni að andmæla öllu sem hafði verið gert á síðasta kjörtímabili og halda því til haga að þá hefði allt verið slæmt en nú væri allt orðið gott o.s.frv. Nú höfum við haft þessa ríkisstjórn við völd í hátt á þriðja ár. Það er bara einn og hálfur vetur eftir fram að næstu kosningum. Enn er þessi orðræða algerlega ríkjandi. Við höfum orðið mjög vör við þetta, bæði í andsvörum og ræðum við þessa umræðu, að talsmenn meirihlutaflokkanna tala fyrst og fremst um það sem var og með hvaða hætti þáverandi ríkisstjórn hafi hagað öllu illa.

Hins vegar vil ég segja og sagði í fyrstu ræðu minni að mér finnst óásættanlegt með öllu og við sem tókum við verkefninu 2009 eigum aldrei að láta það óátalið þegar því er haldið fram að eitthvert árið sé sambærilegt við árið 2009. Við skulum leiðrétta það og tala um það í hvert einasta skipti sem einhver kemur hingað og talar um síðustu ríkisstjórn og hversu slæm hún hafi verið, sem nefnir ekki þá staðreynd að hér var 120 milljarða halli á ríkissjóði, hann eða hún skal fá leiðréttingu á sínu máli. Við skulum standa fyrir stórri leiðréttingu á því (Forseti hringir.) orðfæri stjórnarmeirihlutans, því að það er rangt og þetta er óþolandi.