145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:26]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Strax eftir hrun var gatið meira að segja stærra, 216 milljarðar, og það var eiginlega með ólíkindum að það skyldi hafa tekist að loka því á fjórum árum. Það er mikilvægt að við séum með þennan samanburð algjörlega á hreinu. Núna erum við hins vegar í þeirri stöðu að við erum komin yfir núllið, en menn hafa líka ofan á það verið að afsala sér tekjum frá útgerðinni, frá þeim sem mesta fjármuni eiga og ætla núna að losa sig við raforkuskattinn. Það er auðvitað gjörólík staða.

Mér finnst við bera mikla ábyrgð hér og eins og hv. þm. Helgi Hjörvar hefur sagt erum við kjararáð þessara hópa. Við eigum að hætta þessu karpi, við eigum að velta því fyrir okkur og svara spurningunni: Getur einhver lifað á 200 þús. kr. plús/mínus 30 þús. kr. í íslensku samfélagi í dag? Með húsnæðiskostnaðinn eins og hann er, matarkostnaðinn eins og hann er og allt sem því fylgir að reyna að komast af hér. Þetta eru hóparnir sem hafa byggt upp samfélagið, eru núna komnir á efri ár og eiga það skilið frá okkur að geta (Forseti hringir.) lifað sómasamlegu lífi, og síðan aftur þeir sem geta ekki unnið fyrir sér vegna langvinnra sjúkdóma eða af öðrum ástæðum. Þess vegna verður maður svo reiður í þessari umræðu því að þetta er fólk sem getur ekki annað en horft til okkar. (Forseti hringir.) Við berum mikla ábyrgð og við verðum að leggja allt þetta karp til hliðar.