145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Af því að hv. þingmaður var svo vinalegur að geta þess að ég væri formaður þingflokks ætla ég að bæta um betur og geta þess að ég var einu sinni formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar og ráðherra skipulagsmála að auki, (Gripið fram í.) að vísu hvort á sínum tímanum. Af þeirri reynslu er mér ljóst og af þekkingu á skipulagsmálum að það er ekki hægt að skilyrða við einhverja tiltekna teikningu í skýringum við fjárlagafrumvarp hvernig ásýnd, efnisval eða umfang einhverrar byggingar verður í einhverri óskilgreindri framtíð. Það er ekki þannig. Ég veit að forsætisráðherrann dreymir um að hafa meira vald yfir einstökum málum en hann getur ekki tekið að sér smáatriði skipulagsvalds á einum tilteknum reit í einhverju einu tilteknu sveitarfélagi.

Þessi texti í skýringum við breytingartillögur í fjárlagafrumvarpinu endurspeglar bara hvað tilveran er galin undir þessari ríkisstjórn, að menn skuli yfir höfuð láta sér detta þetta í hug. Það vill svo til að þessi tillaga kom fyrst fram 1. apríl. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður man eftir því, en 1. apríl birtist teikningin sem hv. forsætisráðherra hafði grafið upp einhvers staðar í dagblaði þar sem þess var getið að þessi tillaga væri einn þriðji af afmælisgjöf forsætisráðherra til lýðveldisins. Hinir þriðjungarnir tveir voru annars vegar Hús íslenskra fræða sem skyldi byggt, sem ég held að sé löngu tímabært og okkur öllum til skammar að þar skuli enn vera hola, eða stöðuvatn á dögum eins og þessum, og hins vegar skyldi endurbyggja Valhöll á Þingvöllum sem var þó þvert á alla stefnumörkun Þingvallanefndar á þeim tíma. Allt var þetta kúnstugt, en þessi þríþætta tillaga varð líka afvelta í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Það hefur komið fram í ræðustól Alþingis.