145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hæstv. forsætisráðherra sé laumuhúmoristi. Hann má eiga það að hann getur verið fyndinn á köflum. Þegar hann kom með þessa yfirlýsingu 1. apríl var hún ekki það eina sem hann kom með þann dag. Þann dag mátti líka skilja hann sem svo að hann hefði ákveðið að nýi spítalinn mundi rísa á allt öðrum stað en ríkisstjórnin var nýbúin að samþykkja. Ég taldi að það væri aprílgabbið hjá hæstv. forsætisráðherra og þess vegna ginntist ég til að trúa því að honum væri alvara með hús Guðjóns Samúelssonar.

Í æsku minni kynntist ég lítillega af afspurn Elvis Presley sem átti gott lag þar sem var þessi lína: Ef maður á ekki draum rætast aldrei neinir draumar. Ég er hlynntur því að hæstv. forsætisráðherra dreymi. Þar fyrir utan er ég þeirrar skoðunar að menn verði að fara eftir lögum og reglum í þessu samhengi. Ég skil svar hv. þingmanns þannig að þetta hafi ekkert upp á sig, þetta sé bara formaður fjárlaganefndar sem rétt einu sinni sé að gusa úr sér, dósera, yfir þingheim og það sé ekkert á bak við það, þetta sé bara hugarflug sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Það á reyndar við um margt annað í fjárlagafrumvarpinu líka.